Fyrsti leikur Fram í Úlfarsárdal

Framvöllurinn í Úlfarsárdal með nýju stúkuna í bakgrunni.
Framvöllurinn í Úlfarsárdal með nýju stúkuna í bakgrunni.

Framarar leika í fyrsta skipti á Íslandsmóti á heimavelli sínum í Úlfarsárdal þegar þeir taka á móti HK í níundu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á fimmtudagskvöldið.

Framarar hafa leikið á Laugardalsvellinum til eþssa en þjóðarleikvangurinn hefur verið heimavöllur félagsins nær óslitið frá 1960, ásamt Melavellinum á meðan hann var og hét.

Komin er stúka við völlinn sem rúmar um 400 áhorfendur og í fréttatilkynningu frá knattspyrnudeild Fram segir að vinna við völlinn sé á lokastigi fyrir leikinn gegn HK á fimmtudagskvöld.

Þá kemur fram að nýr fullbúinn leikvangur Fram í Úlfarsárdal verði tekinn í notkun árið 2019, samkvæmt tímaáætlun sem borgarstjóri kynnti í vor.

Þar með eru fimm félög í 1. deild komin með gervigras á sínum aðalvelli en auk Fram eru það Þróttur, HK, Haukar og Grótta. Þá hefur Fjarðabyggð leikið alla heimaleiki sína á gervigrasi það sem af er tímabilinu og KA spilaði þrjá fyrstu heimaleiki sína á gervigrasi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert