„Þurfum að byrja að dæla inn stigum“

Haraldur Freyr Guðmundsson í leik Keflavíkur og ÍA á dögunum.
Haraldur Freyr Guðmundsson í leik Keflavíkur og ÍA á dögunum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur, fór meiddur af velli í 2:1 tapi liðsins á móti Stjörnunni á Nettóvellinum í 10. umferð Pepsi deildar karla. Mbl.is náði sambandi við hann í morgun þegar hann ræddi meiðslin og fallbaráttu Keflvíkinga sem eru á botni deildarinnar með 4 stig.

„Stjarnan gaf fyrirgjöf og Jeppe átti skot, við lentum í einhverju klafsi og ég fékk hnéð hans í lærið mitt. Síðan stífnaði það upp í hálfleik og það var bara of vont til að halda áfram. Þetta var samt bara „deadleg“ eins og maður kallar það, ég held ég verði alveg klár í næsta leik,“ sagði Haraldur Freyr.

Mikilvægir leikir framundan

Keflavík sækir Leikni R. heim á Leiknisvöll í næstu umferð. Leiknir er í 8. sæti deildarinnar með 9 stig, jafnt ÍA og Víkingi að stigum. ÍBV er með 8 stig í 11. sæti deildarinnar en Haraldur segir að sigur ÍBV á Breiðablik í fyrradag hafi ekki haft mikil áhrif á Keflvíkinga því þeim nægir ekki að komast upp fyrir ÍBV því það eru tvö neðstu lið sem falla.

„Við vorum alltaf í keppni við ÍA, Leikni og Víking eins og staðan er núna því við þurfum að komast upp fyrir tvö lið. Það er ekkert annað sem við getum gert en að líta til næsta leiks. Það verður mjög mikilvægur leikur fyrir okkur. Ef við náum að vinna þann leik erum við 2 stigum frá þeim. Sem betur fer er nóg eftir af mótinu og við getum ennþá haldið okkur uppi,“ bætti Haraldur við.

Eftir leikinn við Leikni keppir Keflavík við Víking á útivelli. Víkingur mun eiga erfiðan leik við KR í næstu umferð þannig að ef heppnin er með Keflavík gæti liðið hirt 9. sæti eftir tvær umferðir. Haraldur vill þó ekki reiða sig á úrslit annarra leikja og segir að Keflvíkingar ættu frekar að einbeita sér að eigin leik.

„Það er mikilvægast fyrir okkur að líta á næsta verkefni sem er Leiknir og stefna á það að eiga góðan leik og ná góðum úrslitum. Það er klárt mál að til þess að halda sér uppi í efstu deild þarf maður að vera í kringum 20 stig. Við þurfum að taka okkur á og byrja að hala inn stigum.

Haraldur Freyr Guðmundsson í baráttu við FH-inginn Steven Lennon.
Haraldur Freyr Guðmundsson í baráttu við FH-inginn Steven Lennon. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert