Mikill meðbyr með okkur

Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA.
Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA. mbl.is/Eggert

Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna kvaðst vera gríðarlega sáttur við eitt stig gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í dag en liðin skildu jöfn, 1:1, í Garðabænum þar sem ÍA jafnaði metin þrátt fyrir að vera manni færri síðasta hálftímann.

„Já, mér fannst eitthvað móment með okkur þarna í seinni hálfleiknum. Við vorum vissulega í ströggli í þeim fyrri en mér fannst við vera að ná tökum á leiknum í byrjun seinni hálfleiks og fram að þessu rauða spjaldi. Mér fannst við vera að taka yfir leikinn eiginlega og vera líklegir til að jafna," sagði Gunnlaugur við mbl.is.

„Svo er það oft þannig fílingur í þessu liði að þegar atvik eins og rautt spjald kemur, þá höfum við engar áhyggjur. Við náðum að skora þetta mark, fengum vissulega ekki mörg önnur færi, en náðum að halda - og svo veit maður aldrei hvað þarf til að skora sigurmark. Kannski bara eina aukaspyrnu við miðju, þá erum við hættulegir. 

En ég er gríðarlega sáttur við karakterinn í liðinu og mér finnst vera mikill meðbyr með okkur, sem hefur verið allt frá "Fjölnishryllingnum" sem ég kalla svo, leikjunum tveimur við Fjölni í vor. Það hefur verið mikil stígandi í okkar leik frá þeim tíma, ef við undanskiljum kannski Valsleikinn.

Þó Stjarnan hafi ekki landað mörgum sigrum í ár þá eru þeir með gríðarlega sterkt lið og fengu mikinn liðsauka í gær, þó það hefði reyndar komið dálítið á óvart að Guðjón skyldi vera í byrjunarliðinu. En við sjáum bara þeirra styrkleika á þeim leikmönnum sem koma inná, þetta eru gæðaleikmenn, svo ég er gríðarlega sáttur með að hafa tekið stig á móti þessu liði.“

Gunnlaugur lumaði reyndar sjálfur á góðum leikmanni á bekknum því Garðar B. Gunnlaugsson kom inná sem varamaður og var aðeins þrjár mínútur að jafna metin í 1:1.

„Já, heldur betur. Garðar er allur að koma til eftir sex vikna fjarveru og við höfum hægt og bítandi verið að koma honum í form á ný. Hann er klár, ég hefði  getað látið hann byrja inná í dag en Arsenij og Ásgeir voru mjög sterkir í síðasta leik svo ég ákvað að bíða með hann á bekknum. Hann minnti heldur betur á sig, þurfti bara eitt færi til að skora. Það er mjög sterkt fyrir okkur að vera með þrjá góða og ólíka framherja til að  velja úr."

Stigið er dýrmætt fyrir Skagamenn sem halda sig fyrir ofan mesta hættusvæði deildarinnar en þeir eru nú fimm stigum fyrir ofan ÍBV sem er í fallsæti.

„Já, klárlega. Þetta er mjög sterkt stig, rétt eins og stigið sem við náðum á móti KR-ingum á þeirra heimavelli. Við tökum því fagnandi. Annars hefði ég viljað sjá aðra þróun á þessum leik og hvað hefði gerst ef við hefðum verið ellefu á móti ellefu allan tímann," sagði Gunnlaugur Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert