„Harpa nýbúin að drulla yfir mig“

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í leiknum í gærkvöldi.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í leiknum í gærkvöldi. mbl.is/Guðmundur Karl

„Við komum miklu sterkari inn í seinni hálfleikinn, vorum yfir í baráttunni og öllum þessu litlu atriðum og kláruðum leikinn vel sem lið,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, eftir 1:3 sigur á Selfossi í Pepsi-deild kvenna í gærkvöldi.

 „Þetta var baráttuleikur tveggja góðra liða. Fyrri hálfleikurinn var jafn, við settum aðeins á þær í byrjun en svo fengum við á okkur mark og duttum aðeins niður. En við náðum okkur á strik aftur og vorum sterkari í seinni hálfleik,“ sagði Ásgerður í samtali við mbl.is.

 Stjarnan fékk tvö mörk á háglansandi silfurfati frá Selfyssingum í seinni hálfleik. Harpa Þorsteinsdóttir skoraði bæði mörkin en hún er alltaf tilbúin til þess að refsa varnarmönnum sem gera mistök.

 „Þetta sýnir bara góðan framherja, þetta eru eiginlega ekki færi sem hún fær en hún þefar þetta uppi og það sýnir bara hversu góður framherji hún er,“ sagði Ásgerður sem sjálf skoraði fyrsta mark Stjörnunnar og jafnaði 1:1 eftir einkar laglega sókn í fyrri hálfleik.

 „Já, það var frábært spil og Harpa var nýbúin að drulla yfir mig að ég þyrfti að koma mér framar. Þannig að ég tók einn sprett fram og skoraði.“ Það var fimmta mark Ásgerðar í deildinni en eftir leikinn gegn Selfossi er Harpa búin að skora níu og þær eru markahæstar Stjörnukvenna. En ætlar Ásgerður að ná henni?

 „Ég held að hún verði ekki sátt við mig ef ég næ henni. Mér væri alveg sama en henni væri það ekki. Ég stefni á að vera einu marki fyrir aftan hana, ég held að það sé klárlega mitt markmið,“ sagði Ásgerður létt.

 Selfoss og Stjarnan mætast næst í úrslitaleik Borgunarbikarsins í lok ágúst og Stjörnufyrirliðinn á von á mjög svipuðum leik og í kvöld.

„Þetta verður baráttuleikur. Það er alltaf mjög erfitt að spila á móti Selfossi, þær eru með frábært lið, vel mannað og gefa ekkert eftir. Mér finnst ógeðslega gaman að spila á móti þessum miðjumönnum, þær gefa manni alvöru leik og láta mann finna fyrir því. Góður „fætingur“ og ótrúlega góðir leikmenn. Þannig að ég held að bikarúrslitaleikurinn verði góð skemmtun og ég hvet alla til þess að mæta á þann leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert