„Grétar sat líka á bekknum allan tímann“

Bjarni Guðjónsson segir eitt stig ekki hjálpa KR-ingum mikið.
Bjarni Guðjónsson segir eitt stig ekki hjálpa KR-ingum mikið. mbl.is/Eva Björk

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, var frekar niðurlútur eftir 2:2 jafnteflið gegn Val í Pepsi-deild karla í kvöld. Úrslitin þýða að KR er nánast úr leik í titilbaráttunni en Vesturbæingar eru sjö stigum á eftir FH þegar einungis fjórar umferðir eru eftir af mótinu.

„Eitt stig hjálpar okkur allavega ekki. Í stöðunni sem við erum í þurfum við þrjú stig,“ sagði Bjarni við mbl.is eftir leikinn í kvöld. Hann bætti því við að titilbarátta KR-inga væri mjög erfið eftir úrslit kvöldsins.

Bjarni sagði ekkert óeðlilegt við það að Gary Martin, markahæsti leikmaður KR síðustu tvö tímabil, sitji á bekknum allan leikinn og komi ekkert við sögu. Margir furðuðu sig á því að Martin skyldi ekki koma inn á í síðari hálfleik þegar KR-ingar þurftu nauðsynlega á marki að halda.

„Grétar sat líka á bekknum allan tímann, Kiddi Magg kom frá Víkingum og hann sat líka á bekknum allan tímann. Þetta er bara hluti af því að vera í stórum og góðum hóp. Þorsteinn og Almarr komu inn á og stóðu sig báðir frábærlega og Balbi kom inn á. Það er bara hægt að setja þrjá inn á og þetta er staðan eins og hún er.“ 

Bjarna fannst þetta besti leikur KR gegn Val á þessu tímabili en Valur vann hinar tvær viðureignir liðanna í sumar. „Við byrjuðum vissulega illa en stýrðum leiknum undir lok fyrri hálfleiks. Síðan fannst mér við mikið betri allan síðari hálfleikinn. Við fáum tvö dauðafæri og svo er spurning hvort við eigum að fá eitt eða tvö víti líka, ég veit það ekki. Mér fannst við betri, vorum mikið með boltann en það skilar ekki neinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert