„Hugurinn var kominn til Frakklands

Gylfi Þór Sigurðsson tryggir hér Íslandi mikilvægan sigur gegn Hollandi …
Gylfi Þór Sigurðsson tryggir hér Íslandi mikilvægan sigur gegn Hollandi í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslandi sigur á Hollandi í leik liðanna í undankeppni Evrópumóts landsliða sem fram fer í Frakklandi á næsta ári með marki úr vítaspyrnu. Gylfi Þór kveðst hafa verið stressaður áður en hann tók vítaspyrnuna mikilvægu.

„Ég hugsaði fyrst og fremst að ég mætti alls ekki klikka. Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem að ég er stressaður fyrir því að taka víti. Ég var farinn að hugsa langt og var kominn með hugann til Frakklands. Ég fann það á mér að við myndum fá víti í dag og var búinn að velja mér horn og sem betur fór boltinn inn,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Íslands, í viðtali við RÚV, eftir leikinn í kvöld.

„Það skipti sköpum að við héldum hreinu í þessum leik. Gríðarlegur dugnaður lagði grunninn að þessum sigri og við vörðumst allir sem einn. Rauða spjaldið og sú staðreynd að Robben (Arjen Robben) fór út af meiddur hjálpaði okkur mikið. Framherjaskiptingin í fyrri hálfleik kom okkur á óvart. Eftir því sem leið á leikinn óx sjálfstraustið hjá okkur og við náðum sem betur fer að tryggja okkur sigurinn,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson enn fremur. 

„Við erum í frábærri stöðu eftir þennan sigur. Það eru þrír leikir eftir og við erum í algerri lykilstöðu. Við þurfum eitt stig úr þessum þremur leikjum og við stefnum að því að klára þetta á heimavelli á sunnudaginn og fagna með okkar frábæru stuðningsmönnum heima. Leikurinn á sunnudaginn við Kasakstan verður hins vegar erfiður og við verðum að spila vel til að vinnan þann leik,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert