Höskuldur efnilegastur í deildinni

Höskuldur Gunnlaugsson með verðlaunin í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson með verðlaunin í kvöld. Ljósmynd/KSÍ

Höskuldur Gunnlaugsson úr Breiðabliki var í kvöld útnefndur efnilegasti leikmaðurinn í Pepsi-deild karla í knattspyrnu keppnistímabilið 2015 en hann varð hlutskarpastur í hinu árlega kjöri leikmanna deildarinnar.

Að þessu sinni voru viðurkenningarnar ekki afhentar við sérstaka athöfn en fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands mættu á lokahóf knattspyrnudeildar Breiðabliks nú í kvöld og afhentu Höskuldi þar viðurkenninguna frammi fyrir eigin félagsmönnum.

Höskuldur var í stóru hlutverki í liði Breiðabliks í sumar en hann lék 20 af 22 leikjum liðsins í Pepsi-deildinni og skoraði 6 mörk. Hann var næstmarkahæsti leikmaður liðsins, á eftir Jonathan Glenn.

Þá hefur Höskuldur leikið alla fjóra leiki 21-árs landsliðs Íslands á þessu ári og skorað tvö mörk en þau gerði hann í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM, gegn Makedóníu.

Höskuldur Gunnlaugsson á fullri ferð með Breiðabliki í sumar.
Höskuldur Gunnlaugsson á fullri ferð með Breiðabliki í sumar. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert