Leiðinlegar æfingar sem virka

Theódór Elmar Bjarnason heldur boltanum á lofti á æfingu íslenska …
Theódór Elmar Bjarnason heldur boltanum á lofti á æfingu íslenska liðsins í vikunni. mbl.is/Eggert

„Mín hugmyndafræði gengur út á það að skipuleggja liðið og Kolbeinn tekur eflaust undir það að æfingarnar eru stundum svolítið leiðinlegar, og mikið um endurtekningar,“ sagði Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á fréttamannafundi fyrir leikinn við Lettland sem fram fer á morgun.

Lagerbäck sagði ekkert gert öðruvísi í undirbúningnum fyrir lokaleikina tvo í undankeppni EM, þrátt fyrir að sætið í lokakeppninni sé í höfn. Eftir að hafa gefið í skyn að æfingarnar gætu verið svolítið leiðinlegar, var Kolbeinn Sigþórsson, sem einnig sat fyrir svörum á fundinum, spurður hvort það væri satt:

„Í þessari viku, þó að við séum komnir áfram, eins íhaldssamur og hann [kinkar kolli til Lagerbäck] er, þá höldum við áfram á sömu braut og gerum þessar æfingar sem eru ekki þær skemmtilegustu, en virka. Það hefur sýnt sig, að það er erfitt að spila á móti okkur vegna þess hvað við erum skipulagðir. Hann er ekkert með allra skemmtilegustu æfingarnar, en þetta er mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Kolbeinn, og tók undir að miðað við árangur íslenska liðsins væri ekki hægt að kvarta yfir æfingunum:

„Við getum ekki vælt yfir þessu, að fá ekki alltaf að fara í reitabolta og spila. Það er mikilvægara að stilla saman strengina og fara yfir varnartaktík og sóknaraðferðir. Það hefur verið okkar plan undanfarin ár að gera þetta svona, og af hverju að hætta því núna?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert