Sautján sæti frátekin

Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck. mbl.is/Golli

Hvaða 23 leikmenn munu skipa fyrsta hóp íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem tekur þátt í lokakeppni Evrópumótsins? Þeir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson munu ekki velja endanlegan hóp fyrir Frakklandsferðina fyrr en í sumarbyrjun. Ísland leikur þar gegn Portúgal, Ungverjalandi og Austurríki 14., 18. og 22. júní.

Þegar þar að kemur hefur íslenska landsliðið væntanlega spilað sjö vináttulandsleiki frá áramótum, líkast til alla erlendis. Í fyrstu þremur leikjunum í janúarmánuði, gegn Finnlandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum í Abu Dhabi og gegn Bandaríkjunum í Los Angeles, munu 12-14 af þeim sem einna mest hafa spilað ekki vera með. Þeir verða þá uppteknir með sínum félagsliðum og fyrir vikið fá hátt í fjörutíu leikmenn frá liðum á Norðurlöndum að spreyta sig og reyna að sýna fram á að þeir komi til greina í hinn endanlega EM-hóp.

En þó að Lars og Heimir staðhæfi að allir eigi möguleika og allt sé galopið varðandi tækifæri til að vinna sér sæti í liðinu er alveg á hreinu að þeir eru búnir að skrifa flest nöfnin í sína bók. Þeir hafa verið frekar íhaldssamir í liðsvali sínu til þessa og eru búnir að mynda smám saman sterkt byrjunarlið og öflugan kjarna í kringum það. Þeir munu ekki fara í neinar róttækar breytingar. Nánast er óhætt að fullyrða að sautján leikmenn séu þegar komnir á „örugga“ listann þeirra, með þeim fyrirvara að viðkomandi verði allir heilir heilsu þegar að stóru stundinni kemur, eða hafi ekki hrapað þeim mun meira í getu og formi á því hálfa ári sem er til stefnu.

Tveir um hverja stöðu

Hópurinn verður þannig samsettur að tveir leikmenn eru um hverja stöðu útispilara, 20 talsins, og svo verða þrír markverðir. Lars og Heimir spila ávallt 4-4-2 þannig að uppsetningin er tiltölulega einföld. Þó er mögulegt að hreyfa þetta eitthvað til. Sumir leikmenn eru fjölhæfir og geta leyst af hendi fleiri en eina stöðu, og þá opnast möguleikar á að kippa inn viðbótarmanni í aðra stöðu. Theódór Elmar Bjarnason getur sem dæmi spilað sem kantmaður, miðjumaður eða hægri bakvörður og Emil Hallfreðsson er jafnvígur sem miðjumaður og kantmaður. Þá er skilgreining á kantmönnum hægra og vinstra megin nokkuð opin og þeir geta í raun allir spilað hvorum megin sem er.

Lítum á stöðuna á hópnum nú um áramót. Hvaða leikmenn fara örugglega, miðað við fyrrgreindar forsendur um ástand og gengi, hverjir eru í mestu baráttunni og hverjir eiga kannski möguleika ef þeir standa sig sérstaklega vel? Þó ég hafi ekki fengið að glugga í minnisbók Lars og Heimis þá er ekki fjarri lagi að hún líti svona út, í hverri stöðu fyrir sig:

Markverðir (3):

Öruggir: Hannes Þór Halldórsson og Ögmundur Kristinsson.

Í baráttunni: Gunnleifur Gunnleifsson og Ingvar Jónsson.

Mögulegir: Frederik Schram, Haraldur Björnsson, Róbert Örn Óskarsson og Rúnar Alex Rúnarsson.

Hægri bakverðir (2):

Öruggir: Birkir Már Sævarsson og Haukur Heiðar Hauksson.

Mögulegir: Diego Jóhannesson og Adam Örn Arnarson.

Miðverðir (4):

Öruggir: Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson.

Í baráttunni: Sölvi Geir Ottesen, Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Sverrir Ingi Ingason.

Mögulegir: Jón Guðni Fjóluson, Hjörtur Hermannsson, Hjálmar Jónsson.

Vinstri bakverðir (2):

Öruggur: Ari Freyr Skúlason.

Í baráttunni: Kristinn Jónsson og Hörður Björgvin Magnússon.

Mögulegur: Hjörtur Logi Valgarðsson.

Miðjumenn (4):

Öruggir: Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Emil Hallfreðsson.

Í baráttunni: Rúnar Már Sigurjónsson og Ólafur Ingi Skúlason.

Mögulegir: Oliver Sigurjónsson, Guðmundur Þórarinsson, Eggert Gunnþór Jónsson og Guðmundur Kristjánsson. Guðlaugur Victor Pálsson er úr leik vegna meiðsla.

Kantmenn (4):

Öruggir: Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason, Rúrik Gíslason og Theódór Elmar Bjarnason.

Mögulegir: Arnór Ingvi Traustason, Arnór Smárason og Kristinn Steindórsson.

Framherjar (4):

Öruggir: Kolbeinn Sigþórsson, Jón Daði Böðvarsson og Alfreð Finnbogason.

Í baráttunni: Eiður Smári Guðjohnsen og Viðar Örn Kjartansson.

Mögulegir: Matthías Vilhjálmsson, Elías Már Ómarsson og Kjartan Henry Finnbogason.

Þegar lesið er betur úr þessu má sjá að mesta baráttan stendur um hvaða tveir miðverðir verða til taks fyrir Ragnar og Kára, hver fjórði miðjumaðurinn verður, hvaða framherji verður til viðbótar við þá Kolbein, Jón Daða og Alfreð, og hver á að vera til taks fyrir Ara sem vinstri bakvörður.

Síðan getur áðurnefnd fjölhæfni leikmanna breytt forsendunum. Ef Theódór Elmar verður valinn sem bakvörður gætu dyrnar galopnast fyrir Arnór Ingva, eða þá fimmta framherjann.

Það er líka í hæsta máta ólíklegt að allir sem taldir eru öruggir með sæti verði heilir heilsu og leikfærir þegar stóra stundin rennur upp. Meiðsli eru hluti af tilveru knattspyrnumanna og ekkert lið mun sleppa undan því að einhverjir heltist úr lestinni eftir langt og strangt tímabil með sínu félagsliði. Þá verða vináttulandsleikirnir í janúarmánuði mikilvægur gagnabanki fyrir Lars og Heimi. Tilgangurinn með þeim er því fyrst og fremst að finna hvaða leikmenn eigi að vera til taks ef einhverjir fastamannanna missi af EM í Frakklandi.

Stundum er sagt að í vináttulandsleikjum vanti nokkuð uppá að knattspyrnumenn leggi sig alla fram. Sú verður ekki raunin að þessu sinni.

Greinin er úr áramótablaði Morgunblaðsins, Tímamót, sem kom út í gær, laugardag.

Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason fagna marki Gylfa Þórs …
Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason fagna marki Gylfa Þórs gegn Póllandi. AFP
Íslendingar fagna EM farseðlinum.
Íslendingar fagna EM farseðlinum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert