Framherjaleit í Fossvoginum

Bjarni Ólafur Eiríksson, Veigar Páll Gunnarsson og Gilles Mbang Ondo …
Bjarni Ólafur Eiríksson, Veigar Páll Gunnarsson og Gilles Mbang Ondo eftir leik Stabæk gegn Brann árið 2011. Ljósmynd / Páll Höskuldsson.

Víkingur Reykjavík sem leikur í Pepsi deild karla í knattspyrnu er í leit að framherja þessa dagana og samkvæmt frétt sem birtist á Fótbolti.net hafa Víkingar sýnt Gilles Mbang Ondo áhuga. 

Ondo lék hér á landi með Grindvíkingum frá 2008 til 2010 áður en hann fór til Noregs þar sem hann lék með Stabæk og Sandnes Ulf. Ondo varð síðan landsmeistari með Nemjeh í Líbanon árið 2013, en síðustu tvö árin hefur hann spilað í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum og Óman.

Ondo varð markakóngur úrvalsdeildarinnar árið 2010 þegar hann skoraði 14 mörk fyrir Grindavík. Jafnmörg og Alfreð Finnbogason fyrir Breiðablik og Atli Viðar Björnsson fyrir FH en í færri leikjum.

Ondo hefur opinberað áhuga sinn á að snúa aftur til Íslands, en hann er þessa stundina staddur á landinu í heimsókn hjá bróður sínum Loic Ondo. Þeir bræður spiluðu með Grindavík gegn Haukum í B-deild Fótbolta.net mótsins um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert