Fyrsta umferðin í tölum

Flestir áhorfendur mættu á KR-völlinn í fyrstu umferðinni.
Flestir áhorfendur mættu á KR-völlinn í fyrstu umferðinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Áhorfendur voru færri í 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu sem leikin var á sunnudag og mánudag en í 1. umferðinni 2015. Þá voru þeir 10.305 (1.717 á leik) en eru nú 8.995 (1.499 á leik). Þess ber að geta að KR og FH mættust í fyrstu umferð í fyrra.

Flestir sáu leik KR og Víkings R., 1.895 manns, en fæstir sáu leik ÍBV og ÍA, eða 914.

Þriðja árið í röð voru skoruð 15 mörk í 1. umferðinni, 2,5 að meðaltali í leik. Heildarmeðaltal í fyrra var 2,88 mörk í leik.

Eyjamenn unnu tímamótasigur þegar þeir lögðu ÍA 4:0. Þetta var 300. sigur ÍBV í efstu deild frá upphafi, í 738 leikjum.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði sitt 100. mark í efstu deild, samanlagt í Noregi og á Íslandi, þegar hann gerði fyrra mark sitt og Stjörnunnar í sigrinum á Fylki, 2:0. Veigar hefur nú skorað 30 mörk í íslensku úrvalsdeildinni, 16 fyrir Stjörnuna og 14 fyrir KR, en hann gerði 71 í þeirri norsku.

Atli Guðnason úr FH spilaði sinn 200. leik í efstu deild þegar meistararnir lögðu Þrótt 3:0.

Atli Viðar Björnsson hefur skorað á 15 tímabilum fyrir FH í efstu deild eftir að hann gerði eitt markanna gegn Þrótti. Þetta var 107. mark hans í deildinni.

Víðir Þorvarðarson lék sinn 100. leik í efstu deild, og þann fyrsta fyrir Fylki, þegar liðið tapaði fyrir Stjörnunni í Garðabæ.

Björn Pálsson er nú eini leikmaður Víkings í Ólafsvík sem hefur leikið alla 23 leiki félagsins í efstu deild. Hann er einn eftir af þeim sem spiluðu alla 22 leiki liðsins 2013 og lék í sigurleiknum gegn Breiðabliki í fyrstu umferðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert