Sandra komin aftur frá Leverkusen

Sandra María Jessen í leik gegn Stjörnunni í fyrra.
Sandra María Jessen í leik gegn Stjörnunni í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu, er gengin til liðs við Þór/KA á nýjan leik en hún hefur leikið með Bayer Leverkusen í Þýskalandi undanfarna þrjá mánuði.

Sandra fór beint í lið hjá Leverkusen þegar hún kom þangað í byrjun febrúar og spilaði alla átta deildarleiki liðsins í byrjunarliði frá þeim tíma. Liðið var aðeins með 9 stig eftir 12 leiki og í bullandi fallhættu þegar Sandra kom en hún skilur við liðið í öruggri höfn í efstu deild.

Leverkusen vann fjóra af þeim átta leikjum sem Sandra spilaði og er þar með komið með 21 stig í tíunda sæti deildarinnar. Fyrir neðan eru Werder Bremen og Köln sem eru fallin þegar tveimur umferðum er ólokið.

Síðasti leikur Söndru var gegn Bayern München um síðustu helgi en Bayern gulltryggði sér þar þýska meistaratitilinn annað árið í röð með stórsigri, 5:0.

Sandra er þar með klár í slaginn með Akureyrarliðinu sem sækir bikarmeistara Stjörnunnar heim í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna næsta miðvikudag, 11. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert