Breiðablik fer til Wales

Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrra eftir tíu ára bið.
Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrra eftir tíu ára bið. mbl.is/Styrmir Kári

Íslandsmeistarar Breiðabliks drógust í riðil með liðum frá Serbíu, Búlgaríu og Wales í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna. Dregið var í dag.

Leikið er í níu fjögurra liða riðlum í forkeppninni og kemst sigurvegari hvers riðils áfram í 32-liða úrslit.

Breiðablik var í 3. styrkleikaflokki en mætir ZFK Spartak frá Serbíu úr 1. flokki, NSA Sofia frá Búlgaríu úr 2. flokki, og Cardiff Met frá Wales úr 4. flokki.

Allir leikir riðilsins fara fram á heimavelli Cardiff Met í Wales, en það var ljóst fyrirfram hvaða lið yrðu á heimavelli í forkeppninni.

Avaldsnes frá Noregi, sem þær Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir leika með, dróst í riðil með PK-35 Vantaa frá Finnlandi, Benfica frá Portúgal og Newry City frá Norður-Írlandi.

Hið nýja lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, Wolfsburg, og lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, Eskilstuna frá Svíþjóð, eru þegar komin áfram í 32-liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert