Við erum að sogast í fallbaráttu

Mees Siers og félagar hans í ÍBV töpuðu í dag.
Mees Siers og félagar hans í ÍBV töpuðu í dag.

Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV, var brúnaþungur eftir 2:1-tap hans mann gegn Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. ÍBV er eftir leikinn í 10. sæti með 17 stig en Fylkir er sæti neðar með 13 stig.

„Þetta var mjög svekkjandi. Við mættum ekki alveg nógu vel inn í leikinn. Eftir markið brugðumst við ágætlega við og það var synd að við vorum ekki búnir að jafna fyrir hlé. Við héldum áfram og náðum að jafna og svo gerum við ein mistök sem kostuðu okkar þetta mark,“ sagði Bjarni eftir leikinn í kvöld.

Albert Brynjar Ingason kom Fylki yfir í fyrri hálfleik en Elvar Ingi Vignisson jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks. Albert tryggði Fylki sigur rúmum tíu mínútum fyrir leikslok eftir varnarmistök heimamanna.

„Við eyddum miklu púðri í að jafna leikinn en svo fannst mér þetta 50/50 þar til þeir gera annað markið,“ sagði Bjarni.

Hann telur ekki að bikartapið gegn Val hafi setið í hans mönnum. „Það virkaði ekki þannig en maður veit það aldrei. Byrjunin var þunglamaleg en tókst að vinna okkur ágætlega inn í leikinn.“

Þjálfarinn veit að ÍBV er komið í harða fallbaráttu. „Við erum að sogast allverulega í þessa baráttu og vitum vel af því. Þess vegna var slæmt að tapa hér í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert