Ég skammaðist mín

Hermann Hreiðarsson þarf að rýna í leik sinna manna.
Hermann Hreiðarsson þarf að rýna í leik sinna manna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, gat í fljótu bragði ekki nefnt marga jákvæða punkta eftir 3:0 tap sinna manna gegn ÍA í Pepsi-deildinni í kvöld. Fylkir er áfram í 11. sæti, fjórum stigum frá öruggu sæti í efstu deild.

„Það eru fáir. Kannski að við vorum miklu sterkari en þeir í hornum og unnum báða teigana. Hann [boltinn] fór bara ekki inn en á góðum degi hefðum við getað skorað 3-4 mörk úr þessum hornum og löngum innköstum. Það er eiginlega það eina jákvæða,“ sagði Hermann eftir leik.

Hermann var spurður að því hvort að vonbrigðin eftir góðan sigur gegn ÍBV væru ekki extra mikil, þar sem hans menn voru flatir og daufir allan leikinn í kvöld.

„Já, ég sammála því. Þetta var dofið og dasað. Það var ekki kraftur í neinu. Einfaldar sendingar og móttökur að klikka og ekki nógu mikil alvörugræðgi í mönnum. Ef þig vantar það, þá verður alltaf erfitt að spila fótbolta. Svo færum við þeim bara tvö fyrstu mörkin á silfurfati.“

„Í síðustu leikjum höfum við sýnt frábæran karakter. En ég veit eiginlega ekkert hvað gerðist [í kvöld]. Ég átta mig bara ekki alveg á því. Þetta var dofið, spilið hægt og vantaði bara kraft í allt. Ég er orðlaus. Ég skammaðist mín fyrir fyrri hálfleikinn.“

Gamli baráttuhundurinn er ekkert búinn að gefast upp, þrátt fyrir dökka stöðu Fylkis.

Það er nóg eftir og fullt af stigum í pottinum. Þetta er í raun ekkert annað en að við misstum af frábæru tækifæri að taka þrjú stig. Við spilum hvern einasta leik til að ná í þrjú stig og munum berjast fyrir þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert