Miklir töffarar þó sumar eigi erfitt með svefn

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er spenntur fyrir komandi fjögurra þjóða móti sem fram fer í Chongquing-héraði í Kína á næstu dögum.

„Mér lýst mjög vel á þetta. Stór Ólympíuvöllur, flott mannvirki og glæsilegt umhverfi í kring. Grasið er í lagi og völlurinn í góðri stærð svo þetta er bara meiriháttar,“ sagði Freyr í viðtali við KSÍ á keppnisvellinum í dag. Fyrsti leikur er gegn heimakonum á fimmtudag og flestir leikmenn eru klárir.

„Staðan er góð á flestan hátt. Flestir leikmenn eru heilir heilsu en Svava Rós [Guðmundsdóttir] er tæp í ökkla og spilar ekki á móti Kína. En hún verður orðin klár fyrir leik tvö. Annars hefur þetta snúist um að koma okkur í gang og snúa við sólarhringnum. Allir sem komu frá Íslandi eru á góðu róli, en þær sem komu seint í gær og í dag eru enn að jafna sig en verða klárar á morgun,“ sagði Freyr.

Það er átta klukkustunda tímamismunur frá Íslandi. Hvernig hefur gengið að aðlagast?

„Bara vel. Þær eru fljótar að tileinka sér nýtt tímabelti enda agaðar og sterkar. Það tekur á hjá sumum að halda sér vakandi til að ná nætursvefni, en þetta eru miklir töffarar og klára þetta,“ sagði Freyr, en hann ætlar að nota þetta mót til þess að prófa nokkuð af nýjum hlutum.

Prófa nýtt leikkerfi

„Við ætlum að fara inn í leikinn við Kína spilandi 3-5-2 og prófa það leikkerfi svona með okkar áherslum. Fyrst og fremst verðum við að einbeita okkur að ná góðum tökum á því leikkerfi. Ef það tekst er ég sáttur og nokkuð viss um að úrslitin verði í lagi. Auðvitað viljum við alltaf vinna leiki en verður fyrst og fremst horft á frammistöðu leikmanna, hvernig þeir ráða við leikfræðina og vonandi gengur það bara vel,“ sagði Freyr og segir það mikilvægan lið í undirbúningi fyrir EM í Hollandi næsta sumar.

„Það er liður í undirbúningnum að prófa þetta leikkerfi til þess að eiga það uppi í erminni fyrir EM. Við munum ekki spila það oft fyrir EM og eigum við það þá ef það gengur upp. En það hefur gengið vel í því sem við höfum verið að gera og engin ástæða að bylta miklu. En það er hollt fyrir okkur að vera tilbúin að mæta mismunandi andstæðingum. Þetta er liður í því,“ sagði Freyr.

En hvað segir hann um kínverska liðið, mótherja fimmtudagsins?

„Þær eru nýkomnar frá Ólympíuleikunum, fljótar og sterkar og tæknilega fínar. Þær eru allar að spila í Kína og æfa nánast sem félagslið. Þetta verður því virkilega krefjandi og skemmtilegt verkefni,“ sagði Freyr Alexandersson við KSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert