Erfiðustu aðstæður sem ég hef upplifað

Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í baráttunni …
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í baráttunni í leik liðsins gegn Danmörku í dag. Ljósmynd/facebook síða KSÍ

„Við vorum að skapa okkur fín færi, en það vantaði greddu á síðasta þriðjungi vallarins. Við héldum boltanum vel sem við erum ekki vanar að gera á móti Danmörku sem sýnir merki um jákvæða þróun í leik okkar,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:0 tap liðsins gegn Danmörku í í vináttulandsleik í dag.

„Mér finnst við geta tekið margt jákvætt út úr þessum leik og á sama tíma fengum einnig svör við því hvað við þurfum að laga. Það voru margir leikmenn sem fengu að spreyta sig og þeir stóðu sig vel og það eykur breiddina í leikmannhópnum. Eins og ég sagði áðan komum við okkur í góðar stöður eftir að hafa látið boltann ganga laglega á milli okkar, en það vantaði grimmd í vítateig Dana,“ sagði Margrét aðspurð um hvað hafi verið jákvætt og neikvætt í leik íslenska liðsins í dag. 

„Við fundum það einnig í dag að við erum nokkrum skrefum á eftir danska liðinu hvað varðar snerpu, kraft og úthald. Það er eitthvað sem við verðum og viljum bæta áður en kemur að lokakeppni EM næsta sumar. Ef að við bætum þann þátt leiksins þá komumst við nær sterkustu þjóðum Evrópu sem er markmið okkar,“ sagði Margrét enn fremur um það hvað íslenska liðið gæti lært af þessum leik. 

„Ég held að ég hafi aldrei spilað við jafn erfiðar aðstæður og í þessum leik. Það er svakalega heitt hérna og mikill raki í loftinu. Það vantaði ferska sjávarloftið sem ég er vön frá Vestmannaeyjum. Völlurinn var líka þungur sem gerði leikmönnum erfitt fyrir að spila boltanum á milli sín,“ sagði Margrét Lára um aðstæður í Kína í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert