Eins nálægt alvöruleik og hægt er

Björn Bergmann Sigurðarson sækir að marki Kínverja í leiknum í …
Björn Bergmann Sigurðarson sækir að marki Kínverja í leiknum í gær. AFP

„Við erum mjög glaðir með þessi úrslit og frammistöðuna í heild sinni. Það er ákaflega skemmtilegt að fá að spila úrslitaleik á svona móti og við þessar aðstæður,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, við Morgunblaðið eftir sigurinn á Kínverjum, 2:0, í undanúrslitum China Cup í Nanning í gær.

„Aðstæðurnar hérna eru frábærar fyrir leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og þessi leikur komst eins nálægt því að vera alvöruleikur á stórmóti og hægt er. Fjöldi áhorfenda, stór leikvangur, mikill áhugi fjölmiðla og ströng öryggisgæsla. Þetta er ótrúleg reynsla fyrir strákana og mun stærra en við erum vanir úr janúarverkefnunum okkar,“ sagði Heimir, en á sama tíma í fyrra spilaði liðið fyrstu leiki ársins frammi fyrir nokkrum tugum áhorfenda við Persaflóann.

Heimir sagði að fyrri hálfleikurinn hefði ekki verið góður. „Þetta er yfirleitt þannig í fyrsta leik, strákarnir þekkja ekki mikið hver inn á annan, hafa ekki eins mikinn tíma á boltanum og þeir héldu, og eftir ágætar 10-15 fyrstu mínúturnar gáfum við eftir. Kínverjarnir voru fljótir og við lentum í vandræðum með þá, liðið var ekki nógu þétt og slitnaði of mikið í sundur.“

Ánægður með seinni hálfleik

Hann var hins vegar mjög ánægður með seinni hálfleikinn. „Í hálfleik töluðum við um að færa okkur aftar á völlinn, vera rólegri og yfirvegaðri, og það gekk upp. Okkur gekk mun betur að opna Kínverjana í seinni hálfleik og svo er ég afar ánægður með varamennina sem komu inn á. Þeir voru með rétta viðhorfið, voru vinnusamir og kraftmiklir og vissu nákvæmlega hvað þeir áttu að gera. Kjartan og Aron skoruðu báðir og þeir sem komu inn á voru allir klárir í verkefnið.“

Miðverðirnir bestu menn

Heimir hrósaði mest miðvörðunum. „Þeir Jón Guðni og Kári voru einstaklega sterkir, héldu vörninni vel saman, og þótt ósanngjarnt sé að taka einhverja út vegna þess hve margir stóðu sig vel var þeirra frammistaða okkur afar mikilvæg. Björn Bergmann var mjög sterkur frammi og óheppinn að skora ekki og Kjartan Henry kom inn á með mikinn kraft,“ sagði Heimir.

Ísland leikur til úrslita á mótinu á sunnudag gegn annaðhvort Króatíu eða Síle, en þau mætast í dag. Hins vegar spilar Kína við tapliðið um bronsverðlaunin á laugardag.

„Fyrir utan það að komast í úrslitaleik og eiga möguleika á að vinna bikar var gott að vinna sér inn aukadag með því að sigra Kínverjana. Ég reikna með sterkari mótherja í úrslitaleiknum, hvort sem það verður Króatía eða Síle, en aukadagurinn mun klárlega nýtast okkur vel,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka