Gaman að sjá hvað framtíðin er björt

Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Heilt yfir fannst mér þetta nokkuð góður leikur hjá okkur,“ sagði Birkir Már Sævarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, þegar mbl.is sló á þráðinn til Kína eftir að Ísland tapaði fyrir Síle, 1:0, í úrslitaleik China Cup.

Sjá frétt mbl.is: Ísland fékk silf­ur í Kína

„Þetta var allt í lagi fannst mér. Þeir voru meira með boltann en sköpuðu sér samt ekki sérstaklega mikið af færum, kannski helst í lokin þegar við vorum farnir að fara framar. Það vantaði síðustu sendinguna hjá okkur til þess að skapa okkur færi, en við fengum fullt af svona næstum því sénsum,“ sagði Birkir Már.

Það er ekki á hverjum degi sem Ísland spilar úrslitaleik og segir Birkir að það hafi verið auðvelt að undirbúa sig fyrir átökin.

„Það er ekkert mál að gíra sig upp í úrslitaleik, hvort sem það er æfingamót í janúar eða í einhverju öðru móti. Maður vill alltaf vinna alla leiki og öll mót, svo menn voru vel stemmdir fyrir leikinn. Það var gefið allt í þetta, svo það var ekki það sem vantaði upp á í dag.“

Birkir Már Sævarsson sendir fyrir mark Kína í sigurleiknum á …
Birkir Már Sævarsson sendir fyrir mark Kína í sigurleiknum á þriðjudag. AFP

Reyni að vera til staðar sem reynslubolti

Alls voru sjö nýliðar í íslenska landsliðshópnum sem fór til Kína, en Birkir Már var leikjahæsti leikmaður hópsins. Hann hefur nú spilað 67 landsleiki, en voru ungu mennirnir mikið að leita til reynsluboltans?

„Ég reyni að vera til staðar fyrir þá sem vilja og er búinn að reyna það sem reynslumikill leikmaður fyrir ungu strákana. Ég er kannski ekki týpan sem er úti um allt að spjalla við allt og alla, en ef einhvern vantar ráð þá hafa þeir getað komið til mín. Maður verður að geta stigið upp sem reynslubolti – kempa,“ sagði Birkir og hló. „Maður reynir að sinna því hlutverki eins vel og maður getur.“

En hvernig finnst honum yngri leikmennirnir hafa komið inn í verkefnið?

„Þeir hafa staðið sig frábærlega, allir sem einn. Það er ljóst að framtíðin er mjög björt og það er enginn skortur á ungum, efnilegum leikmönnum á Íslandi. Það er alveg sama hvaða verkefni er, það er alltaf nóg af leikmönnum sem eru tilbúnir til þess að standa sig mjög vel. Það er gaman að sjá hvað framtíðin er björt,“ sagði Birkir Már.

Íslenska liðið fagnar marki gegn Kína.
Íslenska liðið fagnar marki gegn Kína. AFP

Betra að vera hér en úti að hlaupa í -15 gráðum

Birkir Már spilar með Hammarby í Svíþjóð, þar sem undirbúningstímabilið er í fullum gangi. Hann segir ekki slæmt að geta brotið það upp með eins og einni ferð til Kína!

„Þetta var mjög fínt, ég var ánægður með ferðina. Það er betra að vera hér og spila leiki heldur en að vera í -15 gráðum í Stokkhólmi að hlaupa. Það er kærkomið að hafa spilað tvisvar 90 mínútur á einni viku. Þá kemst maður fyrr í gott stand,“ sagði Birkir, en hann er á leið til Kanaríeyja með liði sínu strax og hann kemur aftur frá Kína.

„Við mætum beint úr fluginu frá Kína og til Kanarí. Það er alls ekki verra,“ sagði Birkir Már Sævarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert