Er enn að ná áttum

Sigríður Lára Garðarsdóttir í landsliðstreyjunni.
Sigríður Lára Garðarsdóttir í landsliðstreyjunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég bjóst alls ekki við þessu, ég er algjörlega í skýjunum og ég er enn að ná áttum. Þjálfarinn minn hringdi í mig og lét mig vita og ég varð virkilega glöð," sagði Sigríður Lára Garðarsdóttir, knattspyrnukona úr ÍBV. Hún var valin í landsliðshópinn í sem keppir á Algarve-bikarnum í byrjun mars. 

Sigríður hefur verið viðloðandi landsliðið áður og spilaði sinn fyrsta A-landsleik á síðasta ári, en aldrei tekið þátt í verkefni í líkingu við Algarve. 

„Þetta er eitt af stærstu mótunum sem við tökum þátt í. Ég var með landsliðinu á Akureyri þar sem ég fékk smá reynslu sem var gott. Þetta er auðvitað mun stærra. Markmiðið er að láta vita af mér og sýna hvað ég get, maður verður að hafa trú á sér. Ég hlakka til að taka þátt í þessu."

Íslenska landsliðið er meðal þátttakenda á EM í Hollandi í sumar. Sigríður er ekki farin að hugsa um möguleikann á að vera valin í EM hópinn. 

„Ég ætla að einbeita mér að þessu verkefni fyrst, svo þegar að því kemur þá fer ég að spá meira í því. Það er gott að vita að Freyr Alexandersson hafi trú á mér."

ÍBV komst í bikarúrslit síðasta sumar, en 5. sæti var staðreynd í Pepsi-deildinni. Sigríður segir að Eyjakonur ætli sér lengra í ár. 

„Við erum að fá erlendu leikmennina inn og við erum að púsla líðinu saman. Stefnan er klárlega á að gera enn betur en í fyrra," sagði Sigríður sem var valin íþróttamaður Vestmannaeyja í síðasta mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert