Sandor samdi við Einherja fyrir einn leik

Sandor Matus.
Sandor Matus. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég er bara að gera þeim greiða,“ sagði Sandor Matus, markvörðurinn góðkunni frá Ungverjalandi, sem hefur fengið félagaskipti í Einherja á Vopnafirði. Sandor hefur varið mark Þórs síðustu ár en lagði skóna á hilluna eftir síðasta keppnistímabil.

„Ég þekki Villa [Víglund Pál Einarsson, þjálfara liðsins] vel og hann hringdi í mig í gærkvöldi, hvort ég yrði í bænum og gæti spilað um helgina. Svo ég var að skrifa undir pappírana og allt fyrir einn leik,“ sagði Sandor léttur í bragði við mbl.is.

Einherji mætir Magna frá Grenivík í Boganum á Akureyri í B-deild Lengjubikarsins um helgina, og þar sem enginn markvörður var til taks hjá Vopnfirðingum var hringt í Sandor.

Aðspurður hvort það væri þá engin óvænt endurkoma í undirbúningi hló Sandor og sagði svo ekki vera. Hann er markmannsþjálfari Þórs og æfir enn með meistaraflokki liðsins, en hann mun þar að auki vera til taks sem þriðji markvörður í sumar.

Sandor hefur leikið hér á landi frá árinu 2004, fyrst með KA í áratug en svo með Þór á árunum 2014-2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert