„Ég gerði mistök“

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Kjartansson sagðist hafa gert mistök þegar hann neytti áfengis í aðdraganda þess að fótboltalandsliðið kom saman fyrir leikinn gegn Króatíu í nóvember þegar mbl.is gaf honum færi á að tjá sig um málið á Ítalíu í dag. 

Viðar tekur fram að hann hafi ekki brotið agareglur landsliðsins og hann vilji ekki að þetta mál komi til með að skyggja á undirbúning landsliðsins fyrir leikinn gegn Albaníu í undankeppni HM á föstudag. 

„Ég braut ekki agareglur en ég gerði mistök og þetta var ekki fagmannlegt hjá mér sem er sjaldgæft. Ég velti þessu ekki fyrir mér á þessu augnabliki en hef hugsað mikið um þetta síðan og líður ekki vel yfir því. Þetta er hins vegar búið og gert. Allir gera mistök og maður verður bara að reyna að fækka þeim eins mikið og maður getur. Ég baðst afsökunar og málinu er lokið innan landsliðsins enda mun þetta ekki koma fyrir aftur. Við ætlum að einbeita okkur að leiknum og ég vil ekki að þetta mál taki umræðuna frá þessum mikilvæga leik sem fram undan er,“ segir Viðar Örn í samtali við mbl.is fyrir landsliðsæfingu í Parma. 

Viðar er ánægður með frammistöðu sína að undanförnu í framlínunni hjá Maccabi Tel Aviv. „Stundum getur verið erfitt að byrja hjá nýju liði en ég byrjaði mjög vel hjá Maccabi. Kannski hélt ég á þeim tímapunkti að framhaldið yrði auðvelt en þá kom hins vegar smá lægð hjá liðinu. Sem getur alltaf gerst en eftir að ég lærði betur á liðsfélagana, og þeir á mig, þá hefur gengið betur að skora. Á þessu ári hefur liðinu gengið vel og við erum taplausir.“

Viðar raðaði áður inn mörkunum í Noregi og Svíþjóð en segist ekki geta neitað því að viðbrigðin sem fylgja því að flytjast til Ísrael séu töluverð. „Þegar ég kom þá sögðu liðsfélagarnir mér að þetta væri líklega erfiðasti staðurinn að aðlagast vegna þess að þetta er stærsta liðið og maður er nánast dæmdur eftir fyrstu æfinguna. Leikmennirnir eru öðruvísi týpur en ég hef áður kynnst og hugarfarið er annað en það er skemmtilegt að fá nýja áskorun. Það tekur tíma að venjast þessu en kröfurnar eru miklar. Ég kann vel við mig í Tel Aviv,“ segir Viðar Örn Kjartansson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert