„KSÍ beinlínis að leggja leikmenn í hættu“

Óli Stefán Flóventsson og Róbert Haraldsson, þjálfarar meistaraflokka Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson og Róbert Haraldsson, þjálfarar meistaraflokka Grindavíkur. Ljósmynd/umfg.is

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, var harðorður í garð KSÍ þegar mbl.is ræddi við hann eftir 4:0-tap Grindvíkinga fyrir KR í úrslitaleik Lengjubikarkeppninnar í knattspyrnu í Egilshöll í dag.

„Það þarf að horfa í þá stöðu sem KSÍ setur okkur í. Við erum að spila þriðja leikinn núna á einni viku og þar áður komum við beint úr æfingaferð þar sem við spiluðum tvo leiki á viku. Daginn áður en við fórum út þá spiluðum við gegn Stjörnunni,“ sagði Óli Stefán og hélt áfram:

„Þetta eru sex leikir á 18 dögum, svo KSÍ er beinlínis að leggja leikmennina í hættu. Það sést hér að síðustu 20 mínúturnar vorum við algjörlega búnir, og staðan á ekki að vera svona hjá KSÍ tveimur vikum fyrir Pepsi-deildina,“ sagði Óli og nefndi að leikjaálagið hefði komið sínum mönnum í koll.

„Ég er með sex leikmenn utan hóps vegna meiðsla vegna þessa. Þetta er ekki ásættanleg staða, þó ég sé nú ekki maður afsakana og KR-ingar voru betri en við og verðskulduðu 4:0 sigur. Við tökum reynsluna með okkur inn í deildina,“ sagði Óli, og nefndi að jákvæða hliðin sé hversu margir ungir menn hafa fengið að spreyta sig. Þó af illri nauðsyn.

Aðspurður sagðist Óli enn vera að reyna að styrkja hópinn áður en Pepsi-deildin hefst þann 30. apríl næstkomandi.

„Hópurinn er ekki alveg nógu stór hjá okkur, svo við erum að vinna í því og kemur í ljós fljótlega. Við erum að skoða að bæta við í varnarlínuna og svo á vængjunum, þar sem við þurfum helst breidd,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert