KR-ingar meistarar í sjöunda sinn

KR-ingar glaðbeittir eftir að hafa orðið deildabikarmeistarar í dag.
KR-ingar glaðbeittir eftir að hafa orðið deildabikarmeistarar í dag. mbl.is/Ófeigur

KR tryggði sér sigur í deildabikarkeppni karla í knattspyrnu, Lengjubikarnum, eftir 4:0-sigur á Grindavík í úrslitaleik í Egilshöllinni í dag. Þetta var annað árið í röð og jafnframt í sjöunda sinn sem KR vinnur deildabikarinn og er félagið nú orðið það sigursælasta frá upphafi í keppninni.

KR var sterkari aðilinn í byrjun leiks og þeir Óskar Örn Hauksson og Tobias Thomsen minntu á sig með skotum á mark Grindvíkinga snemma leiks. Það voru engu að síður Grindvíkingar sem voru undan að koma boltanum í netið, það gerði Andri Rúnar Bjarnason af stuttu færi en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Aðeins örskömmu síðar komust KR-ingar svo yfir. Á 30. mínútu fengu þeir aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig, Pálmi Rafn Pálmason renndi boltanum til hliðar þar sem Óskar Örn þrumaði upp í hornið hægra megin. Óverjandi og glæsilegt mark, staðan 1:0 fyrir KR og þannig var hún í hálfleik.

KR-ingar voru áfram meira með boltann eftir hlé og Grindvíkingum gekk ekkert að skapa sér færi. Þeir voru þó enn inni í leiknum, en staða þeirra versnaði hins vegar til muna á 62. mínútu þegar Tobias Thomsen skoraði annað mark KR. Gunnar Þorsteinsson reyndi þá að hreinsa frá marki Grindavíkur, boltinn fór hátt upp í loftið og Daninn skilaði boltanum í netið eftir klafs í teignum. Staðan 2:0 fyrir KR.

Tæpum tíu mínútum fyrir leikslok kom svo þriðja markið og aftur var það Tobias Thomsen sem skoraði, nú af stuttu færi eftir snarpa sókn KR-inga. Í uppbótartíma innsiglaði svo Ástbjörn Þórðarson 4:0-sigur KR eftir sendingu frá öðrum ungum leikmanni, Axel Sigurðarsyni.

Lokatölur 4:0 og KR því deildabikarmeistari annað árið í röð og í sjöunda sinn í heildina – oftast allra liða.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma inn á vefinn hér síðar í dag.

Tobias Thomsen skoraði tvö marka KR í dag og er …
Tobias Thomsen skoraði tvö marka KR í dag og er hér í höggi við Björn Berg Bryde. mbl.is/Ófeigur
Grindavík 0:4 KR opna loka
90. mín. Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík) á skot framhjá Andri Rúnar lét vaða, skrúfaði boltann yfir vegginn en náði ekki að setja hann á markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert