Leikið verður til úrslita í dag

Arna Sif Ásgrímsdóttir og félagar hennar hjá Val mæta Breiðabliki …
Arna Sif Ásgrímsdóttir og félagar hennar hjá Val mæta Breiðabliki í úrslitum Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Úrslitin ráðast í Lengjubikar karla og kvenna í knattspyrnu dag, en úrslitaleikirnir fara báðir fram í Egilshöll í Grafarvogi. Grindvík og KR mætast í úrslitum í karlaflokki og Valur og Breiðablik eigast við í úrslitaleiknum í kvennaflokki.

Grindavík komst í úrslit með sigri gegn KA í undanúrslitum, en úrslit leiksins réðust eftir vítaspyrnukeppni. KR lagði hins vegar FH að velli, 2:1, í hinum undanúrslitaleiknum.

Valur tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með 2:1-sigri sínum gegn Þór/KA á meðan Breiðablik vann öruggan 3:0-sigur á móti ÍBV í hinni viðureigninni undanúrslitunum.

KR freistar þess að verða það lið sem oftast hefur orðið deildabikarmeistari í karlaflokki, en KR og FH eru sigursælust í keppninni með sex sigra hvort félag.

KR varð deildabikarmeistari í karlaflokki á síðasta ári, en liðið sigraði þá Víking Reykjavík í úrslitaleik. Grindavík hefur hins vegar hampað deildabikarmeistaratitlinum einu sinni í karlaflokki, en liðið gerði það árið 2000.

Breiðablik hefur oftast allra liða orðið deildabikarmeistari í kvennaflokki eða sex sinnum. Valur, KR og Stjarnan hafa síðan orðið deildabikarmeistarar í kvennaflokki fjórum sinnum hvert lið og Valur getur þar af leiðandi nálgast Breiðablik með sigri í úrslitaleiknum í dag.

Báðir leikirnir verða í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert