Við erum að fletta bók

Róbert Haraldsson (til hægri)
Róbert Haraldsson (til hægri) Ljósmynd/Grindavík

Róbert Jóhann Haraldsson, þjálfari Grindavíkur, var að vonum svekktur eftir 4:0 tap gegn ÍBV í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Það tók ÍBV tæpar tvær mínútur að skora fyrsta markið. 

„Þetta var fyrsta prófið gegn liði sem er spáð ofar en okkur. Við byrjum hrikalega með því að fá á okkur mark í byrjun og ÍBV hefði getað skorað meira. Við unnum okkur svo vel inn í leikinn um miðjan fyrri hálfleikinn. Vendipunktur leiksins er svo að við fáum dauðafæri og náum ekki að nýta það. Það á eftir að koma í ljós hvort boltinn var inni eða ekki, svo fór ÍBV í næstu sókn og skoraði 2:0, rétt fyrir hlé. Ég breytti aðeins í seinni hálfleik en það gekk ekki upp, við vorum í basli með fljóta sóknarmenn þeirra.“

„Við reyndum að hressa upp á þetta, við vorum búin að hlaupa mikið í fyrri hálfleik. Lauren var búin að vera veik í vikunni, svo hún var ekki klár í heilan leik á meðan Sara var nýkomin heim frá Bandaríkjunum, svo það var tilvalið fyrir þær að fá hálfan leik."

Hin brasilíska Thaisa er búin að vera einn allra besti leikmaður Grindavíkur í sumar, en hún var ekki með í dag vegna meiðsla. 

„Hún lenti í meiðslum í KR-leiknum og hún er að vinna sig til baka. Ég veit ekki alveg stöðuna á henni, hún gæti misst af einum og jafnvel tveim leikjum í viðbót. Það er mjög slæmt að missa hana, hún er drifmótorinn á miðjunni hjá okkur."

Þrátt fyrir úrslitin var Róbert í heild ekki ósáttur við sitt lið. 

„Það er skrítið að segja það eftir 4:0 tap en ég er ekki ósáttur. Það hefði verið gaman að jafna og sjá hvernig það hefði farið. Við erum að fletta bók, við vorum í fjórða kafla núna og fimmti kafli er á laugardaginn. Við erum með margar ungar stelpur sem eru að læra. Það er margt jákvætt í þessu, við viljum og reynum að spila boltanum,“ sagði Róbert að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert