Söguleg þrenna Andra – í fótspor frændans

Andri Rúnar Bjarnason í leik með Grindavík í vor.
Andri Rúnar Bjarnason í leik með Grindavík í vor. Ljósmynd/Víkurfréttir

Andri Rúnar Bjarnason er fyrsti Grindvíkingurinn sem skorar þrennu í efstu deild karla í knattspyrnu í fjórtán ár en þetta er samt í þriðja sinn á þessari öld sem Grindvíkingur gerir þrennu í leik gegn Skagamönnum.

Andri skoraði öll þrjú mörkin í 3:1 sigri Grindavíkur gegn Akranesi á Norðurálsvellinum í kvöld.

Fyrir leikinn hafði Andri skorað þrjú mörk í efstu deild. Tvö fyrir Víking R. tímabilið 2015 og eitt fyrir Grindavík gegn Víkingi R., sigurmarkið, í annarri umferð deildarinnar í vor. Hann tvöfaldaði því markafjöldann í leiknum á Akranesi í kvöld.

Andri er annar leikmaðurinn á þessu tímabili sem skorar þrennu en Steven Lennon gerði þrjú mörk fyrir FH gegn ÍA í fyrstu umferðinni. Skagamenn hafa því verið „þolendur“ í báðum þeim þrennum sem gerðar hafa verið í vor.

Móðurbróðirinn gerði tvær þrennur

Andri, sem er 27 ára gamall Bolvíkingur, er ekki sá fyrsti í sinni fjölskyldu sem skorar þrennu í efstu deild. Hann er systursonur Kristins Jörundssonar, „Marka-Kidda“, sem skoraði grimmt fyrir Fram á áttunda áratug síðustu aldar. Kristinn gerði þá þrennu fyrir Fram gegn Akureyri árið 1971 og aftur gegn KR árið 1976.

Kristinn skoraði 60 mörk fyrir Fram í deildinni á sínum tíma og er sá þriðji markahæsti í sögunni hjá Safamýrarfélaginu í efstu deild.

Grétar var ógnvaldur Skagamanna

Síðastur Grindvíkinga til að gera þrennu í deildinni var Sinisa Kekic sem gerði öll þrjú mörk liðsins í 3:2 sigri á Fram 30. maí árið 2003.

En sú þrenna hjá Kekic var fjórða þrenna Grindvíkings á tæpum tveimur árum. Sandgerðingurinn Grétar Hjartarson sá um hinar þrjár. Grétar var einstakur ógnvaldur fyrir lið Skagamanna á þessum árum. Þann 8. september 2001 skoraði Grétar öll þrjú mörk Grindavíkur í 3:0 sigri á ÍA, sem þrátt fyrir það stóð uppi sem Íslandsmeistari tveimur vikum síðar.

Næsta vor lék Grétar sama leik en hann skoraði þá öll þrjú mörk Grindvíkinga í 3:1 útisigri á Skagamönnum 29. maí 2002. Andri Rúnar lék því nákvæmlega sama afrek á sama stað í kvöld.

Og haustið 2002 var Grétar Hjartarson enn á ferð þegar hann skoraði þrennu fyrir Grindavík í 5:1 útisigri gegn Þór norður á Akureyri 15. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert