Hef sterkar taugar til Víkings

Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. mbl.is/Kristinn

„Það var erfitt að skorast undan þessu þegar á leið og þegar við fórum að tala betur saman,“ sagði Logi Ólafsson við mbl.is en þau tíðindi bárust úr Víkinni eftir hádegi í dag að hann hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Víkings í knattspyrnu í stað Milosar Milojevic, sem hætti störfum hjá félaginu á föstudaginn og var ráðinn þjálfari Breiðabliks tveimur dögum síðar.

„Ég hef sterkar taugar til Víkings. Þetta er félagið sem gaf mér fyrsta tækifærið til að þjálfa í efstu deild á sínum tíma og það hafði kannski eitthvað að segja að ég ákvað að taka starfið að mér á þessum tímapunkti. Ég vildi enda þjálfaraferilinn á annan hátt en það sem gerðist fyrir fjórum árum þó svo að ég hafi verið alveg sáttur við að vera ekkert að þjálfa,“ sagði Logi en honum var sagt upp störfum hjá Stjörnunni eftir tímabilið 2013 og hefur ekki þjálfað síðan þá.

Margir héldu að þú værir hættir í þjálfun?

„Já ég skil það vel en þetta er ákveðin baktería og það eru ekki til nein meðul á hana. Ég hef haldið ágætum tengslum við Víking í gegnum tíðina og ég hlakka bara til þess að hefja aftur störf á gömlum slóðum. Það sem hefur hjálpað mér frá því ég hætti fyrir fjórum árum er að ég hef fylgst vel með og hef verið að vinna í kringum fótboltann með öðrum hætti,“ sagði Logi en aldarfjórðungur er liðinn frá því hann yfirgaf Víking. Hann var þjálfari liðsins frá 1990 til 1992 og undir hans stjórn vann liðið eftirminnilegan Íslandsmeistaratitil eftir sigur á Víði í Garði í lokaumferð Íslandsmótsins árið 1991.

Dragan og Hajrudin aðstoðarmenn

Það hefur ekki gengið vel hjá Víkingi upp á síðkastið en eftir sigur á KR í 1. umferð Pepsi-deildarinnar hefur liðið tapað þremur leikjum í röð í deildinni, gegn Grindavík, ÍBV og nú síðast Breiðabliki en Logi var einmitt í Víkinni á þeim leik sem starfsmaður Pepsi-markanna.

„Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að þetta er krefjandi verkefni sem ég er taka að mér. En ég hefði ekki tekið starfið að mér nema ég væri viss um að gæti snúið gengi liðsins við. Liðið er ágætt og margir fínir leikmenn í því,“ sagði Logi.

Dragan Kazic og Hajrudin Cardaklikja, sem voru aðstoðarmenn Milosar og stýrðu liðinu í leiknum á móti Breiðabliki, verða áfram við störf hjá félaginu og verða Loga til trausts og halds.

„Það er kostur að starfa með mönnum sem þekkja meira til hjá liðinu,“ sagði Logi en hann ætlar að vera á hliðarlínunni í Víkinni í kvöld og fylgjast þar með lærisveinum sínum en liðið á erfiðan leik fyrir höndum á laugardaginn þegar það sækir nýliða KA heim. „Ég er búinn að leggja línurnar fyrir Dragan á æfingunni í kvöld og ætla að fylgjast með leikmönnunum frá hliðarlínunni,“ sagði Logi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert