Víkingur staðfestir ráðningu á Loga

Logi Ólafsson er kominn aftur í Víkina.
Logi Ólafsson er kominn aftur í Víkina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur hefur staðfest að Logi Ólafsson er orðinn þjálfari karlaliðs félagsins í knattspyrnu en hann skrifaði rétt í þessu undir tveggja ára samning við félagið.

Fréttatilkynning frá Víkingi:

„Það er stjórn knattspyrnudeildar Víkings sönn ánægja að tilkynna að samkomulag hefur náðst við Loga Ólafsson um að taka að sér þjálfun meistaraflokksliðs félagsins næstu tvö árin.

Logi var eftirminnilega þjálfari Víkings á árunum 1990 til 1992 og gerði liðið að Íslandsmeisturum 1991.

Hann hefur auk Víkings þjálfað karlalið Stjörnunnar, KR, FH og ÍA á Íslandi. Þá hefur hann þjálfað bæði A-landslið karla og kvenna og verið aðstoðarþjálfari hjá Lilleström í Noregi.

Víkingur bindur miklar vonir við að yfirgripsmikil reynsla Loga Ólafssonar geti nýst félaginu í þeim verkefnum sem fram undan eru.“

Logi tekur við þjálfun Víkingsliðsins af Mi­los Miloj­evic sem óvænt hætti störfum hjá félaginu á föstudaginn en var síðan ráðinn þjálfari Breiðabliks í fyrradag.

Fyrsti leikur Víkinga undir stjórn Loga síðan hann yfirgaf félagið fyrir 25 árum verður gegn KA á Akureyri á laugardaginn. Víkingur vann KR í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar en hefur tapað þremur leikjum í röð, gegn Grindavík, ÍBV og Breiðabliki en vann Hauka í millitíðinni í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Logi var síðast við stjórnvölinn hjá Stjörnunni en hann hætti þar eftir tímabilið 2013 og hefur verið í fríi frá þjálfun síðan þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert