Sigursæl lið í snúinni stöðu

Davíð Þór Viðarsson og Pálmi Rafn Pálmason mætast í dag.
Davíð Þór Viðarsson og Pálmi Rafn Pálmason mætast í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigursælustu lið síðari ára í íslenski knattspyrnu, karlamegin, hafa verið FH og KR. Viðureignir þeirra hafa oftar en ekki haft afgerandi áhrif á lokaniðurstöðu Íslandsmótsins.

Í kvöld mætast KR og FH í Vesturbænum og það telst að sjálfsögðu stórleikur fimmtu umferðarinnar. En liðin koma bæði til leiks í óvenjulegri stöðu. Eftir fjórar umferðir er KR með 6 stig í sjöunda sæti deildarinnar og FH er með 5 stig í áttunda sætinu.

Eflaust enda bæði lið mun ofar þegar upp verður staðið í haust. Gætu jafnvel barist um titilinn þegar þar verður komið sögu. En eftir óvenjumikinn stigamissi á báða bóga í fyrstu umferðunum – FH hefur unnið einn leik og KR hefur tapað tvívegis – er óvenju mikið í húfi. Liðið sem vinnur er komið á hæla þeirra efstu á ný en tapliðið verður jafnvel dottið niður í 9. eða 10. sætið.

KR verður án Stefáns Loga Magnússonar markvarðar næsta mánuðinn eins og áður hefur komið fram og Sindri Snær Jensson ver markið í hans stað.

KR-ingar hafa ákveðið tak á FH eftir að hafa unnið þrjár síðustu viðureignir liðanna í deildinni, 3:1 í Kaplakriki síðsumars 2015 og svo báða leikina í fyrra. Þá vann KR 1:0 í Vesturbænum þar sem Pálmi Rafn Pálmason skoraði sigurmarkið og 1:0 í Kaplakrika með marki frá Kennie Chopart. Að auki hafði KR betur þegar liðin mættust í undanúrslitum Lengjubikarsins í vor.

KR hefur því síðustu árin snúið blaðinu við en um tíma var FH með heljartak á Vesturbæingum. FH vann níu leiki liðanna í röð í deildinni frá 2005 til 2009. Samtals hafa félögin mæst í 62 skipti í deildinni frá 1975 og FH hefur unnið 29 leikjanna en KR 21. FH hefur meira að segja unnið oftar í Vesturbænum en í Kaplakrika, eða í fimmtán skipti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert