Til í að fá sex stig í hverjum leik

Fylkiskonur þurftu að sætta sig við tap í dag.
Fylkiskonur þurftu að sætta sig við tap í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jón Aðalsteinn Kristjánsson, þjálfari Fylkis, var að vonum ósáttur með 3:1 tap síns liðs gegn KR í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Jón var sérstaklega ósáttur með hvernig Fylkiskonur byrjuðu leikinn. 

„Það vantaði að byrja leikinn af fullum krafti. Við vorum allt í lagi fyrstu fimm mínúturnar en svo breyttist leikurinn og við áttum ekki roð í þær. Við fengum svo á okkur mark og það er of dýrt fyrir okkur.“

Hann gerði tvöfalda breytingu í fyrri hálfleik og hann var sáttur við hverju það skilaði. 

„Við skorum strax og við tökum yfir leikinn, svo breytingarnar skiluðu sér að mínu mati. Fyrir þær vantaði meiri ró og að halda boltanum betur og koma honum á kantana og þaðan inn í teig. Það batnaði eftir breytingarnar.“

Jón var spurður hvort þetta hafi verið sex stiga leikur. 

„Ég væri til í að fá sex stig út úr hverjum einasta leik. Við verðum að fá eitthvað út úr hverjum einasta leik, hvort sem það er KR, Stjarnan eða ÍBV, það skiptir ekki máli.“

En er slæma gengið byrjað að hafa áhrif á Fylki? 

„Það hefur alltaf áhrif, ef við værum búin að vinna hvern einasta leik þá værum við að gefa „high five“ og það væri betri stemning. Við erum að berjast í þessu og við erum að gera okkar besta,“ sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert