„Slow motion" í fyrri hálfleik

Ólafur Tryggvi Brynjólfsson.
Ólafur Tryggvi Brynjólfsson.

„Þetta er frábært fyrir strákana. Þeir stóðu sig vel í dag og gerðu allt í þeirra valdi stóð til að ná í þessi þrjú stig. Við erum ótrúlega sáttir," sagði Ólafur Brynjólfsson, sem stýrði Fram til 1:0 sigurs á Gróttu í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. Ólafur tók við keflinu af Ásmundi Arnarssyni sem var rekinn frá Fram á þriðjudaginn var, en Ólafur var aðstoðarmaður Ásmundar. 

Ólafur var ekki sérstaklega ánægður með fyrri hálfleikinn, en annað var uppi á teningnum í þeim síðari. 

„Fyrri hálfleikurinn var „slow motion" og hvorugt liðið vildi gefa færi á sér. Þetta opnaðist í seinni hálfleik og það var spurning um þolinmæði. Við erum að klúðra 4-5 dauðafærum í seinni hálfleik og við hefðum átt að skora meira en eitt mark."

„Menn voru ekki tilbúnir til að opna sig í fyrri hálfleik. Bæði lið hafa verið að fá á sig mörg mörk og greinilega vildu bæði lið halda hreinu. Sem betur fer skoruðum við þetta eina mark. Í hálfleik fórum við yfir hvar við gætum opnað þá í seinni hálfleik. Það gekk eftir og við fengum Alex inn sem var mjög góður og náði að brjóta þetta upp. Allir leikmenn eiga hrós skilið."

Fram fór upp í þriðja sæti með sigrinum og Ólafur er ánægður með stöðu liðsins. 

„Við erum sáttir með að vera nálægt toppnum. Við ætluðum okkur að vera þar og það er bullandi séns enn þá," sagði Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert