Mikil þreyta en gerðum það sem þurfti

Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði ÍBV.
Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst þetta svolítið basl hjá okkur og það virðist vera mikil  þreyta í hópnum en við gerðum það sem þurfti í dag og mjög gott að taka þrjú stig,“  sagði Sóley Guðmundsdóttir fyrirliði ÍBV eftir 2:0 sigur á KR-konum í Vesturbænum í dag þegar leikið var í 10. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu.

ÍBV lagði Grindavík í bikarkeppninni með naumum 1:0 sigri í erfiðum leik síðastliðin föstudag.  „Ég var samt í raun ekki smeyk við þreytuna, vitum hvað við þurfum að gera og förum ekkert fram úr okkur, vinnum rétt það það. Það er alltaf gaman að taka þátt í bikarkeppninni og alltaf stemming í kringum það. Við erum sáttar með stöðu okkar í deildinni og hún er spennandi.  Stigasöfnun hefur verið góð svo þetta verður spennandi.“

 Viljum halda skriðinu

„Mér fannst við eiga skilið að vinna leikinn en við þurftum að vinna fyrir því,“ sagði Ian Jeffs þjálfari ÍBV-kvenna eftir leikinn.   „Þetta var erfitt, alltaf erfitt í Pepsi-deildinni og við höfum oft átt erfitt með að koma hingað.   Þetta er fínasta KR-lið, sem hefur bætt sig mikið með hverjum leik og svo að leikurinn var mjög erfiður.  Ég veit ekki hvernig hinir leikirnir í deildinni fóru í kvöld en við erum bara ánægð með stöðu okkar í deildinni, viljum halda áfram á skriðinu, sem við erum komin á og hefur skilað okkur í baráttu efstu liða og viljum halda áfram að vera þar. Við héldum marki okkar hreinu, skoruðum tvö mörk og fengum færi til að skora fleiri, svo ég er ánægður með þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert