Þær eru með eina Cloé

Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR.
Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR. mbl.is/Sigfús

„Mér fannst við alls ekki síðra liðið á vellinum í dag, spiluðum ágætlega og fengum fullt af færum en ÍBV er með eina Cloé í sínu liði og hún gerði út um leikinn, fékk sín færi og nýtti þau vel,“ sagði Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR-kvenna, eftir 2:0 tap fyrir ÍBV í Vesturbænum í kvöld þegar tíunda umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu hófst.

„Við lögðum ekkert áherslu að ÍBV væri þreytt eftir bikarleikinn sinn, heldur lögðum áherslu á það sem við höfum verið að gera. Áttum reyndar slakan leik gegn Val en fram að því höfðum við verið að bæta okkur. Mér finnst margir leikir okkar í sumar þannig að við erum ekkert síðra liðið en höfum ekkert fengið úr þeim svo það vantar að skora.“

Getum dottið eitthvert rugl

„Við höfðum nóg að gera í vörninni,“ sagði Ólína G. Viðarsdóttir varnarmaður KR eftir leikinn. „Við ýttum ÍBV aðeins ofar og ætluðum að vinna leikinn svo Cloé fékk nokkur færi á að hlaupa á okkur en mér fannst við samt ná að loka vel á hana. Hún er hins vegar frábær leikmaður og klárar sín færi svo það var svolítið að gera í kringum hana.“

KR er í 7. sæti deildarinnar. „Mér finnst sveiflur í leik okkar. Við erum frábærar þegar allar eru með og berjumst og þegar við gerum það getum við unnið hvaða lið sem er á góðum degi.  Svo getum við líka dottið í eitthvert rugl og spila þá ekki eins og við eigum að gera. Við höfum því verið smá rokkandi en ég held að stöðugleikinn sé að koma núna og við byggjum á þessum leik, góð barátta og góð liðsheild í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert