Allt hægt í þessari Evrópukeppni

Baldur Sigurðsson.
Baldur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum fengið mjög góðar upplýsingar frá þjálfarateyminu. Ég veit ekki hvað Írarnir lesa mikið en við búumst við mjög kraftmiklu og árásargjörnu liði sem mun koma með miklum krafti í leikinn. Ég held þetta einvígi sé nokkurn veginn 50/50,“ sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, um einvígi gegn írska liðinu Shamrock Rovers í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Fyrri leikur liðanna fer fram í Garðabænum annað kvöld. 

„Það er ólíkur leikstíll hjá liðunum og ég held það séu stálin stinn að mætast. Við erum á heimavelli og við verðum að passa markið hjá okkur vel og helst lauma inn einu eða tveimur mörkum.“

Hann býst við nokkuð klassísku bresku liði hjá Shamrock. 

„Þetta er klassískt breskt lið sem spilar 4-4-2 og með leikmenn sem eru grimmir að hlaupa inn fyrir, við búumst við þannig liði á morgun. Ég þekkti ekki þessa leikmenn fyrir fram en ég hef fengið upplýsingar um þá. Við erum komnir með nokkuð góða mynd af þeirra styrkleikum og við teljum okkur hafa vopn til að svara þeim og til að vinna heimaleikinn.“

Illa hefur gengið í deildinni hjá Stjörnunni að undanförnu og hefur liðið aðeins fengið eitt stig út úr síðustu fjórum leikjum.

„Síðasti leikur var jákvæður. Sóknarleikurinn var betri en í leikjunum á undan en varnarleikurinn hefði mátt vera betri. Nú er um að gera að nýta þennan leik á jákvæðan hátt, sérstaklega varðandi varnarleikinn. Við höfum fengið níu mörk á okkur í síðustu fjórum leikjum og það dugar ekki á morgun. Við getum ekki gefið þeim 2-3 útivallarmörk.“

„Við verðum að hafa trú á því að við getum komist áfram, ef við höfum ekki trú erum við ekki að fara að vinna á morgun. Það er allt hægt í þessari Evrópukeppni, maður hefur tapað á móti andstæðing sem maður taldi sig geta unnið og svo hefur maður unnið andstæðinga sem maður átti fyrir fram ekki að vinna, þetta er spurning um dagsform og þetta verður þannig á morgun.“

Búist er við 100 írskum stuðningsmönnum á leiknum á morgun. Baldur hvetur fólk til að mæta á völlinn og láta vel í sér heyra. 

„Ég var ekki búinn að heyra með þessa 100 stuðningsmenn þeirra, það er frábært að þeir séu með svona góðan stuðning. Þeir eru vanir því að láta vel í sér heyra. Oft eru 20 áhorfendur hjá þessum bresku liðum og þeir hafa látið mjög vel í sér heyra. Ég hvet því Silfurskeiðina og alla Garðbæinga til að mæta á völlinn og kaffæra Írunum í stúkunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert