Eitt af markmiðunum var að vinna deildina

Valsmenn fagna marki í kvöld.
Valsmenn fagna marki í kvöld. Ljósmynd/Alfons

„Þetta er mjög tilfinning og það er gott að fá þrjú stig í mikilvægum leik. Ég hitti boltann mjög vel og það var gaman að sjá boltann enda inni," sagði Patrick Pedersen eftir að hafa skorað sigurmark Vals í 2:1 sigrinum á Víkingi Ó. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Pedersen gekk aftur til liðs við Vals fyrri í þessum mánuði en hann lék með liðinu frá 2013-2015. 

„Þetta er frábært og betra en síðast og við erum á toppi deildarinnar. Það er gaman að sjá strákana aftur og fólkið í kringum félagið."

Valsmenn eru með sex stiga forskot á toppi deildarinnar. 

„Við verðum að halda liðunum fyrir neðan okkur frá okkur og þess vegna var mjög mikilvægt að vinna í kvöld. Við verðum að hugsa um næsta leik og taka einn leik í einu. Það var eitt af markmiðunum mínum að vinna deildina, það væri æðislegt og við ætlum okkur að gera það."

Pedersen segist ekki vera í almennilegu leikformi en hann er að vinna í því. 

„Ég spilaði í síðustu viku en á undan því hafði ég ekki spilað í þrjá mánuði og ég er að vinna í því að komast í leikform og ég er viss um að það kemur."

Pedersen fékk lítið að spila með Viking í Noregi og hann viðurkennir að það hafi verið pirrandi. 

„Þetta hefur verið pirrandi á þessari leiktíð því ég hef verið tilbúinn til þess að spila. Ég veit ekki hvernig framtíðin verður og ég ætla að einbeita mér að Val núna," sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert