„Við vorum ekkert teknir í nefið“

Haraldur Júlíusson skorar hér annað mark ÍBV í leiknum fræga …
Haraldur Júlíusson skorar hér annað mark ÍBV í leiknum fræga 1972 án þess að Ómar Karlsson í marki FH komi vörnum við.

„Þú veist að það eru 45 ár síðan,“ segir Viðar Halldórsson, núverandi formaður FH, þegar blaðamaður Morgunblaðsins biður hann um að rifja upp frægan bikarúrslitaleik ÍBV og FH í knattspyrnu á Melavellinum árið 1972. Viðar var fyrirliði FH, sem á þessum tíma lék í næstefstu deild, en bikarúrslitaleikurinn fór fram 12. nóvember og töpuðu FH-ingar leiknum 2:0.

„Mig rámar svolítið í þetta. Ég man að það var frekar kalt, en mig minnir að það hafi ekki verið mikið rok. Ég man að það var búið að salta, svo það var ekkert vetrarstand á vellinum svo það var allt í lagi. Þeir voru bara betri, en við vorum ekkert teknir í nefið,“ segir Viðar og brýtur heilann frekar um leikinn.

„Ég held að þetta hafi ekki verið sérstaklega ójafn leikur, en þeir voru betri. Ef ég man rétt skoraði Haraldur Júlíusson bæði mörkin, svokallaður gullskalli. Þeir voru með betra lið og unnu alveg sanngjarnt, en þetta var engin upprúllun. Við vorum með mjög ungt lið. Ég var fyrirliði þetta sumar og var bara 19 ára,“ segir Viðar.

Fúlir í hálftíma og svo skellt upp partíi

Þessi bikarúrslitaleikur reyndist eini tapleikur FH þetta tímabilið. Þrátt fyrir það fór liðið ekki upp í efstu deild, þar sem FH-ingar gerðu fleiri jafntefli en lið ÍBA. Hefði leikurinn við Eyjamenn unnist hefði það skilað fyrsta titli FH í fótbolta, en þess í stað þurftu Hafnfirðingar að bíða allt til ársins 2004 þegar fyrsti Íslandsmeistaratitillinn vannst. En hvernig lagðist það í ungt lið FH að tapa bikarúrslitaleik?

„Við vorum kannski fúlir í hálftíma en svo var bara skellt upp partíi. Þetta var enginn milljónaleikur um Evrópukeppni eða svoleiðis eins og er í dag. Það var þannig lagað minna undir, en þó bikar og hefði verið fyrsti titill FH í fótbolta,“ segir Viðar, en það kom honum mest á óvart í upprifjuninni að leikurinn hefði farið fram í nóvember. Þetta ár var raunar í síðasta sinn sem það var gert.

„Hvaða rugl hefur þetta verið á þessum tíma, hver var eiginlega í mótanefndinni?“ segir hann í léttum tón.

Greinina í heild sinni má finna í 12 síðna sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um bikarúrslitaleik karla.

Viðar Halldórsson.
Viðar Halldórsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert