Þrjár vítaskyttur farnar af velli

Róbert Jóhann Haraldsson.
Róbert Jóhann Haraldsson. Ljósmynd/Skjáskot

„Við æfðum aðeins vítin um daginn, en þrjár þeirra sem ég hafði hugsað mér sem vítaskyttur voru komnar út af,“ sagði Róbert Jóhann Haraldsson, þjálfari Grindavíkur, eftir tapið gegn ÍBV í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu í dag.

Staðan var 1:1 að loknum venjulegum leiktíma en ÍBV vann svo sigur í vítaspyrnukeppni.

„Ég get ekki annað en verið ánægður þó að úrslitin séu súr,“ sagði Róbert við mbl.is eftir leik. Hann var stoltur af sínum konum:

„Ég sagði við þær áður en vítakeppnin hófst að það skipti engu máli hvernig hún færi, ég væri svo stoltur af liðinu. Það sem við lögðum upp með í dag gekk næstum því upp. Við ákváðum að bakka svolítið í fyrri hálfleik og gefa þeim svæði, og reyna að halda markinu hreinu. Þær skoruðu svo á 40. mínútu svo að í hálfleik ákvað ég að breyta aðeins um taktík. Mér fannst við ná ágætistaki á leiknum, en ekki alveg að skapa þessi dauðafæri. Það kom svo í restina. Þetta var örugglega gaman fyrir fólk að horfa á, en súrt og maður hefði viljað fara á Laugardalsvöllinn. En ég er ánægður með stelpurnar og þessi skref sem þær eru að taka. Þær eru með trú á því að þær geti þetta og leggja sig fram.“

Sara Hrund Helgadóttir fór meidd af velli eftir höfuðhögg í leiknum og spurður um útlitið hjá Söru vegna meiðslanna sagði Róbert:

„Það er ekki gott. Hún er hálfvönkuð og hefur verið með höfuðmeiðsli áður. Þetta hefur verið sagan endalausa, með meiðsli í liðinu, en ég vona bara að Sara jafni sig. Bentína er í slæmum meiðslum og Thaisa verður mjög líklega ekki meira með á tímabilinu, en ég er svo stoltur af yngri stelpunum sem eru að taka stöður þessara lykilmanna. Þær eiga hrós skilið.“

mbl.is