„Það er alltaf séns í fótbolta“

Bergsveinn Ólafsson í eldlínunni með FH.
Bergsveinn Ólafsson í eldlínunni með FH. mbl.is/Golli

„Það er stór slagur fram undan sem leggst mjög vel í okkur,“ sagði Bergsveinn Ólafsson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is fyrir æfingu FH í dag. Á morgun mæta Hafnfirðingar liði Braga frá Portúgal í fyrri viðureign liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur.

„Við erum að mæta mjög góðu liði með langa sögu í Evrópukeppni þannig að maður er bara spenntur að spila á móti svona góðum leikmönnum og við erum fullir tilhlökkunar. Þetta er gríðarlega sterkt lið og við gerum okkur grein fyrir því. En við gerum okkur líka grein fyrir því að það er alltaf séns í fótbolta,“ sagði Bergsveinn.

FH tapaði fyrir Maribor frá Slóveníu í síðustu rimmu sinni í Evrópukeppninni, samtals 2:0, en Bergsveinn býst við enn erfiðara einvígi nú.

„Ég held þeir séu sterkari en Maribor og eru með nokkra Brasilíumenn þarna sem eru mjög góðir. Við munum liggja til baka og reyna að beita skyndisóknum. Ef við höldum hreinu á heimavelli þá er allt hægt í þessu. Ef við náum góðum leik eins og markmiðið er þá höfum séns í seinni leiknum,“ sagði Bergsveinn.

Sumarið hefur verið upp og ofan hjá FH, en liðið spilaði síðast á laugardag og tapaði þá sjálfum bikarúrslitaleiknum fyrir ÍBV. Hvernig hafa FH-ingar komið undan því til undirbúnings fyrir þennan risaslag?

„Það eru allir búnir að jafna sig á því. Menn voru að svekkja sig á laugardaginn og sunnudaginn en fótbolti er bara „brutal“ stundum. Auðvitað vorum við hundpirraðir út í okkur sjálfa að hafa ekki unnið þetta, en það þarf bara að gleyma þessu. Lífið heldur víst áfram,“ sagði Bergsveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert