Vorum gríðarlega vel undirbúnir

Aron Einar Gunnarsson gefur samherjum sínum hjá íslenska karlalandsliðinu í …
Aron Einar Gunnarsson gefur samherjum sínum hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu skipanir leik liðsins gegn Úkraínu í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta spilaðist alveg eins og við ætluðum okkur. Við vissum nákvæmlega hvað við vorum að fara út í. Freyr [Alexandersson] var búinn að fylgjast með úkraínska liðinu í um það bil ár og fundurinn hans um andstæðing kvöldsins var langur, ítarlegur og árangursríkur. Við spiluðum vel í leiknum og sérstaklega í seinni hálfleik þar sem við vorum frábærir,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir mikilvægan 2:0-sigur liðsins gegn Úkraínu í undankeppni HM 2018 í kvöld.

„Úkraína hefur á að skipa afar teknískum og hættulegum kantmönnum. Þeir eru klókir við að finna svæði fyrir þessu baneitruðu kantmenn. Við vorum hins vegar búinn að undirbúa það vel hvernig best væri að loka á þetta kantspil og mér fannst það heppnast einkar vel. Við vissum alveg hvað við vorum að fara út í og lokuðum vel á þá,“ sagði Aron Einar um leikáætlun íslenska liðsins.

„Það var síðan meiri kraftur í liðinu í seinni hálfleik. Þeir komu úr löngu og erfiðu ferðlagi í þennan leik og við ræddum það í hálfleik að það myndi draga af þeim eftir því sem leið á leikinn. Við það myndu þeir opnast og við gætum sært þá með beinskeyttum sóknaraðgerðum. Það var mikil ákefð í liðinu og liðið sýndi mikinn karakter að ná að tryggja okkur sigurinn,“ sagði Aron Einar um frammistöðu íslenska liðsins í seinni hálfleik. 

„Ég er virkilega stoltur af öllum þeim sem komu að þessum sigri. Það eru ekki mörg lið sem koma á Laugardalsvöll og ná í stig af okkur. Við fengum frábæran stuðning og það veitti okkar mikla orku í þessum erfiða leik. Við höldum pressu á Króatíu með þessum sigri og það var mikilvægt að ná að jarða vonbrigðin í Finnlandi með góðri spilmennsku og jákvæðum úrslitum,“ sagði Aron Einar um þær tilfinningar sem bærðust í brjósti hans. 

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu undirbýr sig …
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu undirbýr sig undir að taka innkast í leik liðsins gegn Úkraínu í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert