Framtíðin er björt á Akranesi

Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA. Ófeigur Lýðsson

Víkingur R. og ÍA urðu að sættast á markalaust jafntefli í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Víkingsvelli í dag. Í viðtali við mbl.is sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, að sínir menn hefðu átt skilið að vinna.

„Við áttum að klára þennan leik, vorum heilt yfir miklu betri og fáum urmul færa til að skora en því miður var þetta ekki dagurinn.“

„Við sýndum virkilega flottan sóknarleik í fyrri hálfleik og sköpuðum mikinn usla í boxinu hjá Víking. Svo dró aðeins af okkur í restina og þeir komast ofar á völlinn en við eigum að geta skorað fullt af mörkum í þessum leik.“

Þetta er fyrsti leikur ÍA eftir að liðið féll endanlega úr deildinni, fannst honum sínir menn spila betur nú þegar pressunni hefur verið létt?

„Það fannst mér ekki. Við höfum spilað fína leiki undanfarið og þetta var í takt við það sem hefur verið að gerast undanfarið.“

Þetta var fimmti leikur Jóns við stjórnvölin en liðinu hefur gengið ágætlega á þeim tíma en aðeins unnið einn og gert þrjú jafntefli, en hvað hefur breyst frá því að hann tók við?

„Það eru auðvitað alltaf einhverjar breytingar en við hefðum viljað vera með fleiri sigra. Leikur liðsins hefur verið góður upp á síðkastið, bæði varnar- og sóknarleikurinn, og í rauninni hefði ég viljað vinna alla þessa leiki. Í dag erum við miklu betri aðilinn.“

Ætlarðu að vera áfram með liðið?

„Þú verður að spyrja einhverja aðra heldur en mig að því en ég ætla mér það.“

Á Skaginn að geta farið beint upp í Pepsi-deildina aftur?

„Ekki spurning, þó það sé fullt snemmt að fara djúpt í það. En ég tel það ekki nokkra spurningu, framtíðin er björt á Akranesi og það er kjarni af ungum leikmönnum sem er virkilega spennandi. Við höfum ágætis blöndu, það eru leikmenn með meiri reynslu líka og við vonandi höldum þeim. Það er ekki spurning að við eigum að keppast um það að komast strax aftur í Pepsi-deildina.“

Garðar Bergmann Gunnlaugsson hefur verið einn af lykilmönnum ÍA undanfarin ár en hlutverk hans í sumar hefur verið minna og hann hefur þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu. Hann á þó eitt ár eftir að samningi sínum og Jón Þór vill halda honum.

„Garðar á ár eftir af samningi. Hann hefur ekki náð að koma sér í það stand sem hann var í af ýmsum ástæðum. Hann veikist illa fyrir mót og meiðist svo, hann hefur ekki alveg fundið taktinn en síðast þegar hann spilaði í Inkasso deildinni þá skoraði hann 19 mörk þannig að við verðum að sjá til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert