„Maður verður að vera þakklátur í þessu lífi“

Baldur Sigurðsson, Haukur Páll Sigurðsson
Baldur Sigurðsson, Haukur Páll Sigurðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vil byrja á því að nýta tækifærið og óska Val til hamingju með titilinn. Þeir eru vel að þessu komnir. En það er súrsætt að tryggja Evrópusætið þrátt fyrir að tapa leiknum í dag. Maður verður að vera þakklátur í þessu lífi,“ sagði Baldur Sigurðsson fyrirliði Stjörnunnar eftir 1:2 tap gegn Íslandsmeisturum Vals á heimavelli í dag.

Sjá frétt mbl.is: Stjarnan tryggði sér Evrópusæti þrátt fyrir tap

„Eins og staðan var orðin og Valur búið að vinna titilinn þá var markmiðið okkar í dag að tryggja Evrópusætið og þótt við höfum tapað þá tókst það markmið.“

Hvernig fannst þér leikurinn?

„Þetta var skemmtilegur leikur. Það var gaman að spila hann og ég held hann hafi verið mikið fyrir augað líka. Það voru mörg færi og ótrúlegt að við skyldum ekki hafa náð að skora fyrr, jafnvel í fyrri hálfleik. En þetta er ástæðan fyrir því að Valur eru Íslandsmeistarar, þeir nýta sóknirnar sínar og gerðu mjög vel.“

„Við erum svekktir með föstu leikatriðin okkar í vörn og sókn. Við leggjum mikið upp úr því að vera sterkir í þeim og vorum sterkir í því framan af sumri en höfum aðeins farið hrakandi upp á síðkastið.“

Aðspurður hvernig Baldri fyndist tímabil Stjörnunnar hafa verið sagði hann:

„Við gáfum það út að við ætluðum að taka titilinn í sumar og það tókst ekki, við stefndum hærra. En við þurfum líka að vera þakklátir og á heildina litið þá finnst manni þetta sumar vera örlítið skárra en síðasta sumar á einhvern skrýtinn hátt.“

Við vorum lengur inni í titilbaráttunni og við erum enn að festa okkur í sessi sem toppklúbbur. Stjarnan hefur nú fest sig í sessi sem eitt af 2-3 stóru liðunum í landinu. Við fórum í undanúrslit í bikar og náum vonandi 2. sæti í deild. Við bætum svo við okkur og komum sterkir tilbaka næsta sumar,“ sagði Baldur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert