„Úrslitaleikur í Vesturbænum hefði farið með taugarnar mínar“

„Ég er með helvítis hausverk eftir þennan leik. Þetta var skrýtinn leikur,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir 1:2 tapið gegn Val á heimavelli í dag.

„Mér fannst við vera feykilega fínir í fyrri hálfleik en Valur fær 2-3 sóknir sem þeir skora úr og enn og aftur erum við að fá á okkur mark eftir föst leikatriði sem er ekki gott. Svo er dæmt á okkur vafasamt víti.“

„Við fáum urmul af færum í fyrri hálfleik og fyrirgjafamöguleikar hjá Jóhanni [Laxdal] sem gengu ekki nógu vel. Gæðin voru ekki nógu mikil á síðasta þriðjungnum. Síðan fannst mér Valur komast aðeins inn í leikinn í byrjun seinni hálfleiks en svo detta þeir tilbaka og verja stöðuna. Við vorum ekki nógu góðir í að nýta okkur föstu leikatriðin sem við fengum. Ég er hundfúll yfir að hafa tapað þessum leik því við áttum það ekki skilið,“ sagði Rúnar.

Sjá frétt mbl.is: Stjarnan tryggði sér Evrópusæti þrátt fyrir tap

Þrátt fyrir tapið er Stjarnan búin að tryggja sér Evrópusæti á næsta tímabili þar sem KR náði aðeins jafntefli við Fjölni í dag. Var það mikill léttir?

„Auðvitað er þetta mikill léttir að þurfa ekki að fara í Vesturbæinn í einhvern úrslitaleik. Það færi alveg með taugarnar í mér. Við erum búnir að vera í þessu 2. sæti mjög lengi og ætlum að verja það á sunnudaginn. Við verðum bara að eiga góðan leik gegn KR og tryggja okkur 2. sætið. Þá verðum við sáttir með tímabilið,“ sagði Rúnar.

Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki með í dag en hann fékk höfuðhögg í síðasta leik Stjörnunnar gegn ÍA. Að sögn Rúnars mun hann ekki koma meira við sögu á þessu tímabili. „Greyið drengurinn. Hann þarf að jafna sig á þessum höfuðáverkum og vonandi gengur það vel,“ sagði Rúnar að lokum.

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Oisin Keniry
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert