Rúnar hefur sýnt mér mikinn áhuga

Þorsteinn Már Ragnarsson í leik með Víkingi Ólafsvík gegn KR …
Þorsteinn Már Ragnarsson í leik með Víkingi Ólafsvík gegn KR í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin er bara mjög góð og ég er mjög sáttur við að vera kominn hingað. Rúnar Páll [Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar,] hefur reynt að fá mig nokkrum sinnum og nú síðast í sumar. Stjarnan sýndi mér mikinn áhuga eftir tímabili og hingað er ég kominn,“ sagði Þorsteinn Már Ragnarsson sem skrifaði undir samning við Stjörnuna rétt í þessu.

„Þetta er gott skref að mínu mati og er það gott að komast í það umhveri að vera í félagi sem vill berjast um alla þá titla sem í boði eru. Stjarnan er kominn á þann stað í íslenskum fótbolta að liðið hefur verið í baráttu um bikara undanfarið. Það er vonandi að það haldi áfram á næstu árum,“ sagði Þorsteinn Már enn fremur um vistaskiptin. 

„Leikmannahópurinn er góður hjá Stjörnunni og ég er mjög spenntur að spila með þeim. Það er erfitt að yfirgefa Ólafsvík og sérstaklega eftir að Víkingur féll í haust. Nú er hins vegar bara komið að nýju verkefni hjá mér og ég get ekki beðið eftir því að hefja störf hérna í Garðabænum,“ sagði Þorsteinn Már um komandi tíma hjá nýja félaginu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert