Svekkjandi tap gegn Englandi – Ísland úr leik

Byrjunarlið íslenska liðsins fyrir leikinn gegn Englandi í dag.
Byrjunarlið íslenska liðsins fyrir leikinn gegn Englandi í dag. Ljósmynd/Facebook-síða KSÍ

Íslenska U-19 ára landsliðið í knattspyrnu karla beið ósigur, 2:1, þegar liðið mætti Englandi í annarri umferð í undankeppni EM 2019. Ísland hefur þar af leiðandi beðið ósigur í báðum leikjum sínum í undankeppninni, en íslenska liðið tapaði fyrir Búlgaríu, 2:1, í fyrstu umferð undankeppninnar.

Það var Daníel Hafsteinsson, leikmaður KA, sem skoraði mark íslenska liðsins í leiknum, en hann jafnaði metin fyrir Ísland þegar um það bil tíu mínútur voru eftir af leiknum. Það voru Mason Mount sem leikur sem lánsmaður hjá Vitesse Arnheim frá Chelsea og Eddie Nketiah, leikmaður Arsenal sem skoruðu mörks Englands í leiknum.

Búlgaría hafði betur, 2:0, þegar liðið mætti Færeyjum í hinum leik annarrar umferðar undankeppninnar. England vann öruggan 6:0-sigur gegn Færeyjum í fyrstu umferð undankeppninnar. Nketiah sem tryggði Englandi sigurinn gegn Íslandi í dag skoraði fjögur mörk fyrir England í leiknum gegn Færeyjum. 

England og Búlgaría hafa því fullt hús stiga eftir tvær umferðir, en tvö efstu liðin í hverjum riðli fara áfram í milliriðil. Það er því ljóst að England og Búlgaría munu halda áfram í milliriðlana, en Ísland og Færeyjar sem eru stigalaus eiga ekki möguleika á að komast áfram. Ísland og Færeyjar mætast í lokaumferð undankeppninnar á þriðjudaginn kemur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert