„Ég er mjög spennt og get varla beðið“

Ingibjörg Sigurðardóttir í leik með Breiðablik.
Ingibjörg Sigurðardóttir í leik með Breiðablik. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta hefur verið í gangi síðustu vikuna og um leið og ég heyrði áhuga hjá þeim þá var ég mjög spennt,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við mbl.is en hún hefur yfirgefið Breiðablik og samið við sænska félagið Djurgården.

Ingibjörg hefur verið eftirsótt eftir að tímabilinu lauk og hafnaði meðal annars samningi frá Fiorentina á Ítalíu. Hjá Djurgården verður hún samherji Guðbjargar Gunnarsdóttur landsliðsmarkvarðar, auk þess sem Hallbera Guðný Gísladóttir spilaði með liðinu á síðasta tímabili en er nú komin heim.

„Ég var ekki búin að fara út til þeirra en hef talað mikið við Hallberu og Guðbjörgu og þjálfarann hjá þeim líka, svo ég var komin með ákveðna mynd af því hvernig þetta væri. Þær höfðu bara góða hluti að segja. Þetta er flott lið með mikinn metnað og það eru allir spenntir fyrir næsta tímabili að gera betur og enda ofar í deildinni,“ sagði Ingibjörg, en Djurgården hafnaði í sjötta sæti af 12 liðum á síðasta ári.

Ingibjörg segir að stefnan hafi verið sett á atvinnumennsku í haust eftir að tímabilið hér á landi kláraðist, en hún festi sig í sessi í íslenska landsliðinu í sumar og fór með liðinu á EM í Hollandi.

Ingibjörg Sigurðardóttir á landsliðsæfingu.
Ingibjörg Sigurðardóttir á landsliðsæfingu. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Þarf að taka næsta skref til að verða betri

„Ég fann að ég þyrfti að taka næsta skref til þess að verða betri og halda í við hinar, til dæmis í landsliðinu. Ég hef alltaf sett mér há markmið og þetta er klárlega eitt af þeim. Þetta var góður tímapunktur fyrir mig að fara út. Ég er mjög spennt fyrir því og get eiginlega varla beðið,“ sagði Ingibjörg.

Íslenska landsliðinu gekk ekki sem skildi á EM og Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kallaði eftir því að fleiri íslenskar knattspyrnukonur færu í atvinnumennsku. Tók Ingibjörg það til sín?

„Ég held að allar hafi hugsað meira út í það eftir að hann sagði það. Við fundum það líka á EM að það vantaði herslumuninn hjá okkur og til að komast á HM og í meiri baráttu þá þurfum við allar að stíga hærra upp og verða betri,“ sagði Ingibjörg.

Hún var eftirsótt og sem fyrr segir hafnaði hún samningi við Fiorentina á Ítalíu.

„Það var mjög flott félag og mér leist vel á það, en var ekki tilbúin að skrifa undir strax. Þar var tilbúinn samningur og þeir vildu að ég myndi skrifa undir strax, en ég vissi að það væri áhugi frá fleiri stöðum og vildi skoða það fyrst,“ sagði Ingibjörg og segir skrefið til Svíþjóðar vera það rétta.

„Ég held það. Mér leist mjög vel á þetta frá byrjun. Ég er mjög spennt fyrir sænsku deildinni, þekki hana vel og er mjög spennt,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert