Ánægður með frammistöðuna en ekki úrslitin

Åge Hareide ræðir við Sverri Inga Ingason í leikslok í …
Åge Hareide ræðir við Sverri Inga Ingason í leikslok í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Öll töp eru sár en við vorum svo nálægt því að komast á EM," sagði Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta, eftir ósigurinn nauma gegn Úkraínu í úrslitaleiknum um sæti á EM, 2:1, í Wroclaw í kvöld.

„Okkur leið mjög vel eftir fyrri hálfleikinn, vorum með góða tilfinningu fyrir þessu, en við brugðumst sjálfum okkur með jöfnunarmarkinu sem við fengum á okkur.

Við fengum sjálfir færi í skyndisókn og staðsettum okkur ekki rétt þegar þeir náðu skyndisókn á móti okkur í staðinn. Hann fékk að skjóta í hornið óáreittur," sagði Hareide.

„Ég held að liðið hafi verið orðið þreytt á lokakaflanum, en samt hefðum við getað jafnað metin. Við settum alla fram, náðum að pressa þá talsvert og vorum við það að skapa okkur góð færi.

Þegar á heildina er litið er ég mjög ánægður með leikmennina. Þeir stóðu sig vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það dregur af öllum í svona leik þar sem ákefðin er mikil og kannski réð það úrslitum að þeir höfðu aðeins meiri breidd í sínum hópi en við, enda er það eðlilegt þegar um er að ræða fjölmenna þjóð eins og Úkraínu,“ sagði norski þjálfarinn.

Vissum hverjir styrkleikar þeirra væru

Kom eitthvað í leik Úkraínumanna þér á óvart?

„Nei, eiginlega ekki. Við vissum hverjir þeirra styrkleikar væru. Þeir voru með leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni vinstra megin og leikmenn Shakhtar Donetsk hægra megin, og hvað Shakhtar varðar þá eru það alltaf mikil gæði, þar eru alltaf bestu leikmenn Úkraínu. Leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni eru með mikil gæði, þannig að í heildina er ég ánægður með frammistöðuna en ekki með úrslitin."

Þið farið ekki á EM en nú eru áhugaverðir vináttuleikir í júní, við England og Holland.

Åge Hareide á hliðarlínunni í kvöld.
Åge Hareide á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Já, þeir eru mjög áhugaverðir, og það er ljóst að þar munum við fá góða æfingu í að verjast," sagði Hareide hlæjandi.

„Við þyrftum kannski meira á því að halda að fá æfingu í að sækja. En á okkar bestu köflum í leiknum í kvöld spiluðum við vel út úr vörninni og við þurfum að vinna í því, og bæta okkur í að spila frá miðvörðunum."

Albert er gæðaleikmaður

Albert skoraði á ný og þú hlýtur að vera ánægður með hann?

„Já, Albert er gæðaleikmaður, og hann er gæðaleikmaður í ítölsku A-deildinni sem er ein af fimm bestu deildum í Evrópu. Hann sýndi í báðum leikjum hvað hann getur gert og það er virkilega gott að hafa leikmann með slík gæði í þínu liði," sagði Åge Hareide.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert