Varð miklu stærri aðgerð en búist var við

Cecilía Rán Rúnarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, er snúin aftur til æfinga eftir að hafa verið frá vegna alvarlegra hnémeiðsla frá því í ágúst á síðasta ári.

Cecilía Rán er í íslenska landsliðshópnum fyrir tvo leiki gegn Austurríki í undankeppni EM 2025 og er að vonum ánægð með að vera farin aftur af stað eftir langa fjarveru.

„Það er bara geggjað eftir svona marga mánuði inni í ræktinni. Það er frábært að vera loksins að uppskera,“ sagði hún í samtali við mbl.is.

„Ég kem eiginlega inn í þetta landsliðsverkefni til að undirbúa mig betur fyrir það næsta í júlí. Við erum náttúrlega að detta í sumarfrí í þýsku deildinni.

Ég er að koma inn í hópinn með Fanneyju [Ingu Birkisdóttur] og Telmu [Ívarsdóttur] sem hafa staðið sig frábærlega í síðustu leikjum.

Ég er að koma úr erfiðum meiðslum þannig að ég kem inn í hópinn til þess að æfa vel og gera þær betri,“ sagði Cecilía Rán um endurkomuna í landsliðið.

Finn ekkert fyrir hnénu

Hún var frá æfingum og keppni um tæplega níu mánaða skeið eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð á hné.

„Hnéskelin fór úr lið og við það rifnaði liðbandið og brjósk losnaði. Ég þurfti að fara í brjóskígræðslu og við það varð þetta miklu stærri aðgerð en við bjuggumst við, vegna brjósksins,“ útskýrði Cecilía Rán.

Ertu búin að jafna þig alveg á meiðslunum?

„Ég er alveg komin á fullt á æfingum og finn ekkert fyrir hnénu. Ég er ótrúlega ánægð að vera komin til baka og finna ekkert fyrir hnénu. Vonandi heldur það áfram þannig,“ sagði hún.

Áætlað að fara að láni

Cecilía Rán hefur ekkert spilað með Bayern á tímabilinu og er ráðgert að hún fari að láni til annars liðs fyrir næsta tímabil.

„Ég á tvö ár eftir af samningi hjá Bayern en ég átti spjall við félagið og við vorum sammála um að eftir svona langt ár og erfið meiðsli væri betra ef ég færi á lán á næsta tímabili.

Það er allavega planið eins og er þó það sé ekkert ákveðið hvert það yrði. Mér finnst mikilvægt að ég fari að fá leiki í hverri viku.“

Mikilvægast að fá að spila

Aðspurð kvaðst hún ekki vera með einhverja sérstaka deild eða land í huga í þeim efnum. Cecilía Rán mun þó líta til tveggja mikilvægra þátta þegar hún tekur ákvörðun.

„Það skiptir eiginlega engu máli til hvaða lands ég fer. Ég er aðallega að horfa í deildina og liðið. Að þau vilji spila svipaðan bolta og við viljum spila í Bayern og í landsliðinu, að þau vilji spila út frá marki.

Ég vil því velja liðið svolítið vel, bæði út frá leikstíl og svo er mikilvægast að ég fari í lið þar sem ég spila,“ sagði Cecilía Rán.

Að lokum sagðist hún vitanlega stefna að því að endurheimta byrjunarliðssæti sitt í landsliðinu þegar fram líða stundir, en hin tvítuga Cecilía Rán á 11 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.

„Já, auðvitað vill maður alltaf spila þannig að ég held að það sé alltaf markmiðið hjá öllum að vera ein af þeim ellefu sem byrja leiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka