Spánn og Ítalía skildu jöfn (Myndir)

Spánn - Ítalía 1:1
(Fabregas 64. – Di Natale 61.)

Spánn og Ítalía skildu jöfn, 1:1, í fyrsta leik C-riðils á EM 2012. Bæði lið hafa því eitt stig eftir fyrsta leik en á eftir mætast hin liðin í riðlinum, Írland og Króatía.

Markalaust var í hálfleik þar sem Ítalir komu nokkuð á óvart með fínum leik en þeir vörðust vel og áttu hættulegar skyndisóknir.

Það voru svo Ítalir sem komust yfir, 1:0, en markið skoraði Antonio Di Natale á 61. mínútu eftir glæsilega stungusendingu frá Andrea Pirlo. Hann hafði komið inn á sem varamaður fimm mínútum áður.

Adam var þó ekki lengi í paradís því Cesc Fabregas jafnaði ríflega þremur mínútum síðar eftir glæsilega sendingu frá David Silva.

Bæði lið fengu ágætis færi til að tryggja sér sigurinn en jafntefli varð niðurstaðan, 1:1, og liðin skiptu því stigunum á milli sín.

Fylgst var með leiknum hér á mbl.is og má lesa textalýsinguna hér að neðan.

90.+3 Leik lokið, 1:1.

90. Ítalía komst í gott færi áðan en Casillas varði. Það verða þrjár mínútur af uppbótartíma. 

85. Torres komst í annað dauðafæri. Buffon var kominn langt út úr markinu og Torres reyndi að vippa yfir hann en boltinn fór yfir markið. Torres hafði gert vel í að koma sér í færið en það vantaði mýkt í vippuna.

81. Opta Sports á Twitter bendir á þá staðreynd að aðeins einu sinni hefur Ítalía tapað leik á EM eftir að hafa skorað fyrsta markið. Það var í úrslitaleiknum árið 2000 þegar Frakkar unnu í framlengingu.

77. Di Natale komst í dauðafæri nánast á markteig Spánverja eftir glæsilega fyrirgjöf en viðstöðulaust skot hans fór framhjá. Þarna slapp Spánn með skrekkinn.

75. Það tók Torres ekki langan tíma að koma sér í færi. Hann fékk fína stungusendingu frá Jesus Navas inn fyrir vörnina og mætti Buffon sem gerði frábærlega í að hirða boltann af Torres og koma  honum í innkast.

74. Fernando Torres var skipt inn á fyrir markaskorarann Fabregas. Getur „El Nino“ tryggt Spáni sigurinn?

72. Seinni hálfleikur hefur verið mjög fjörugur. Spánn stýrir nú aftur leiknum eftir að hafa jafnað metin en sóknir Ítala eru hættulegar. Varnarleikur Spánverja er ekki jafnsannfærandi og undanfarin ár.

64. MARK! Staðan er 1:1. Spánn var ekki lengi að jafna metin. Nú á David Silva glæsilega sendingu inn fyrir vörn Ítala á Cesc Fabregas sem skorar einn á móti Buffon. Þetta tók þrjár og hálfa mínútu.

61. MARK! Staðan er 0:1. Ítalir komast yfir gegn heims- og Evrópumeisturunum. Varamaðurinn Antonio Di Natele sleppur einn í gegn eftir glæsilega stungusendingu frá Pirlo. Hann hefði getað gefið boltann til hliðar á Cassano en setti boltann þess í stað glæsilega í netið. Ítalía á þetta alveg skilið en Di Natale var búinn að vera inn á í fimm mínútur. Alvöru innkoma. 

56. Prandelli beið ekki boðana eftir þessi „tilþrif“ hjá Balotelli og tók hann af velli. Inn kom Di Natele.

54. Þvílíkur bjánagangur hjá Balotelli. Hann vann boltann af Ramos úti á vinstri kantinum og óð einn að marki. Hann var þó ekkert að drífa sig þegar hann komst inn í teiginn heldur hægði hann á sér svo um munaði. Þegar hann var næstum því orðinn stopp var Ramos búinn að elta hann uppi og bjargaði málunum. Balotelli virtist ekki hafa neinn áhuga á að skora þarna.

51. Spánn í dauðafæri. Iniesta kemst upp að marki Ítala vinstra megin eftir snarpa skyndisókn Spánar. Reynir að skjóta í fjærhornið en boltinn rétt framhjá. Þarna munaði litlu.

50. Spánverjar áttu fyrstu tilraun seinni hálfleiksins. Eftir gott spil náði Fabregas hörkuskoti fyrir utan teig en Buffon varði vel.

46. Seinni hálfleikurinn er hafinn í Gdansk.

45.+1 Hálfleikur. Staðan er 0:0. Ítalir hafa komið mikið á óvart í þessum fyrri hálfleik og Spánn þarf að gera betur ætli það að vinna þennan leik.

45. Ítalía í dauðafæri. Cassano með frábæra fyrirgjöf frá hægri, beint á kollinn á Motta sem var mættur á nærstöngina og skallaði fast að marki en Casillas varði vel.

44. Xavi átti glæsilega sendingu inn fyrir á Iniesta sem reyndi að lyfta boltanum yfir Buffon í markinu en boltinn fór yfir.

36. Ítalir hafa ógnað meira síðustu mínútur. Marchisio átti hörkuskot, viðstöðulaust, sem Casillas gerði vel í að halda. 

34. Cassano átti gott skot á mark Spánar sem Casillas náði ekki að halda. Hann var heppinn að Mario Balotelli var ekki betur staðsettur til að ná frákastinu. 

26. Sóknir Spánverja eru mun hættulegri en sóknir Ítala. Þeir reyna að þræða boltann í gegnum miðja vörn Ítala sem koma boltanum alltaf í burt með látum. Það er enginn afsláttur af þessum hreinsunum Ítala. Spánverjar líklegri til að skora.

23. Ítalir áttu góða sókn upp hægri vænginn og komu boltanum á Cassano í teignum. Hann átti ágætis skot sem lak rétt framhjá markinu. 

13. Ítalir fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og hana tók auðvitað spyrnusérfræðingurinn Andrea Pirlo. Hann reyndi skot í markmannshornið en Iker Casillas varði vel.

12. David Silva fékk fyrsta alvöru færið í leiknum en hann geystist inn á vítateig Ítala en skotið var slakt, beint á Buffon.

8. Mikil stöðubarátta í byrjun leiks. Ítalir leyfa sér að pressa Spánverjana hátt á vellinum enda lítil ógn af framherjum Spánar. 

1. Leikurinn er hafinn.

0. Spánn er ríkjandi Evrópumeistari en liðið lagði Þýskaland, 1:0, í úrslitum fyrir fjórum árum. Það var í annað skiptið sem Spánn vinnur EM en Spánverjar hömpuðu einnig sigri á heimavelli árið 1964. Ítalir hafa einu sinni orðið Evrópumeistarar en það gerðu þeir árið 1968, einnig á heimavelli.

0. Leikurinn fer fram á PGE Arena í Gdans í Póllandi sem er heimavöllur Legía Gdansk og tekur 43.615 í sæti. Þarna fara fram þrír leikir í C-riðli og einn leikur í átta liða úrslitum.

0. Cesara Prandelli, þjálfari Ítala, var ekki viss um hvaða leikkerfi hann ætlaði að spila. Hann hefur nú ákveðið að spila 3-5-2 sem er mikið í tísku á Ítalíu um þessar mundir. Athygli vekur að miðjumaðurinn grjótharði, Daniele De Rossi, leikur sem miðvörður. Emanuele Giaccherini og Christan Maggio eru vængbakverðir.

0. Byrjunarliðin eru klár. Spánn spilar 4-3-3 með engan hreinræktaðan framherja í byrjunarliðinu. Fabregas verður fremsti maður til að byrja með en á bekknum sitja bæði Fernando Torres, leikmaður Chelsea, og Fernando Llorente Torres, leikmaður Athletic Bilbao.

Spánn: (4-3-3) Casillas; Arbeloa, Ramos, Pique, Alba; Busquets, Alonso, Xavi; Iniesta, Silva, Fabregas.

Ítalía: (3-5-2) Buffon; Chiellini, De Rossi, Bonucci; Gianncherini, Marchisio, Pirlo, Motta, Maggio; Balotelli, Cassano.

mbl.is

Bloggað um fréttina

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin