Arnór Atlason: Mikil vinna sem bíður okkar

Arnór Atlason skýtur að marki Austurríkismanna.
Arnór Atlason skýtur að marki Austurríkismanna. mbl.is/Kristinn

,,Þetta var ótrúlegt klúður hjá okkur og maður er bara alveg í sjokki. Ég hélt að við myndum ekki leika sama leik og í leiknum á móti Serbum," sagði Arnór Atlason við mbl.is eftir leikinn við Austurríki. Arnór var besti maður íslenska liðsins líkt og í leiknum við Serbíu og í leikslok valdi sérstök dómnefnt hann besta mann íslenska liðsins.

,,Við gleymdum okkur hvað eftir annað í vörninni en við áttum samt að hafa þetta þar sem við vorum þremur mörkum yfir þegar ein og hálf mínúta var eftir. Við ætlum greinilega að fara erfiðu leiðina,“ sagði Arnór.

,,Ég verð að hrósa austurríska liðinu fyrir mikla baráttu en með eðlilegum leik hefðum við átt að vera búnir að slíta þá frá okkur. Það gengur ekki að fá á sig 37 mörk í leik. Við komum mörgum liðum á óvart með varnarleiknum á Ólympíuleikunum og það lítur út fyrir að mótherjarnir hafi farið vel yfir þá leiki. “

,,Það er mikil vinna sem bíður okkar. Við glímum við Evrópumeistarana og ef við spilum með þessum hætti þá  eigum við það á hættu að sitja eftir. Það er að duga eða drepast. Við höfum sýnt það áður að við gefumst ekki upp. Við eigum allir mikið inni,“ sagði Arnór sem skoraði 9 mörk í leiknum í 12 skotum og átti nokkrar stoðsendingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert